135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[18:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef stutt þá þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum eða það ráðslag að lífeyrissjóðirnir dreifi fjármunum sínum sem víðast og hef ekki lagst gegn því að hluti fjármagnsins sé fluttur úr landi. Hins vegar finnst mér við þessar aðstæður sjálfsagt að taka slíkar hugmyndir til skoðunar. En þá verðum við að hafa eitt í huga, ef við ætlum að flytja fjármagn lífeyrissjóðanna sem nú er vistað erlendis heim til Íslands verðum við að finna því þar stað. Hvar ætlum við að fjárfesta? Og þá verðum við að horfa til þess að sú var tíðin að ríki og sveitarfélög notuðu fjármagn lífeyrissjóðanna til uppbyggingar á velferðarþjónustu landsins, á innra stoðkerfi í samfélagi okkar. Þetta er liðin tíð.

Ég hef hins vegar stutt það að lífeyrissjóðirnir noti öll tækifæri sem þeim gefast til að fjárfesta í uppbyggilegri starfsemi á Íslandi. Þá horfi ég ekki síst á stoðkerfi landsmanna. Þannig hef ég jafnan stutt að keypt séu húsnæðisbréf frá Íbúðalánasjóði en þetta hefur nánast verið einasti kosturinn sem ríki og sveitarfélög hafa boðið upp á.

Þá spyr ég á móti: Á ríkið að gerast umfangsmeira og umsvifameira í uppbyggingu velferðarþjónustunnar á Íslandi og eigum við að reyna að kalla fjárfestingar eða fé frá lífeyrissjóðunum til slíkrar uppbyggingar? Ég væri því fylgjandi, alveg tvímælalaust.