135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[18:20]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nú skerðast lífskjör almennings hér í landinu, heiminn allan skekur lausafjárkreppa og ég held að óhætt sé að segja að það setji nokkurn ugg að mönnum og að af fullri ástæðu beri margir nokkurn kvíðboga fyrir því sem fram undan er og hafi áhyggjur af því að þetta geti orðið erfiður vetur. Ég held þó að það sé fyllilega rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að það sé rangt að kalla það kreppu sem við nú lifum við á Íslandi í dag í allri okkar velsæld. Sannarlega er það ekki kreppa sem við upplifum hér á hverjum degi en ýmsir upplifa sannarlega erfiðleika og það er ekki ástæða til að gera lítið úr því með nokkrum hætti. Hins vegar held ég að það sem setji ugg að mönnum mætti helst kalla það að við erum í tvísýnu. Við höfum á undanförnum árum farið mikinn og við sættum lagi á mörkuðum heimsins til að sækja gríðarlegt lánsfé, margfalt meira en við höfðum nokkru sinni áður gert, á lágum vöxtum sem þá voru í boði og notuðum það fé til að fjárfesta í atvinnurekstri. Og þegar hvort tveggja gerist í senn, að afrakstur af atvinnurekstri almennt í heiminum er verri en hann áður var og hitt að vextir á lánsfé eru umtalsvert hærri en þá var og á stundum jafnvel erfitt um vik að verða sér úti um fjármagnið, er auðvitað full ástæða til þess fyrir okkur að hafa nokkrar áhyggjur. Það var þess vegna gríðarlega mikilvægt að sjá á fyrsta degi þessa haustþings formenn stjórnarflokkanna koma fram og gera grein fyrir þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til og því sem í farvatninu er. Ég held að það sé ótvírætt að í þeim ræðum hafi langlangmikilvægast verið sú greinargerð sem hæstv. forsætisráðherra hafði um eflingu gjaldeyrisvarasjóðsins. Þeir áfangar sem þar hafa náðst síðan á vordögum eru okkur gríðarlega mikilvægir.

Það er rétt að þegar allt lék hér í lyndi sváfu menn á verðinum með að setja í gjaldeyrisvarasjóðinn og kannski kom mönnum á óvart í vetur hversu erfiðlega gekk að sækja lánsfé á alþjóðamörkuðum. En sú aðferð sem nú hefur verið notuð, að auka við í sjóðinn og styrkja hann í áföngum, skref fyrir skref frá því í vor, virðist hafa gefið býsna góða raun og 500 þús. millj. kr. gjaldeyrisvarasjóður verður sannarlega að teljast töluverður árangur. Ekkert er eins mikilvægt nú og einmitt hinn fjármálalegi stöðugleiki vegna þess að það sem við verðum að tryggja umfram allt, ekki síst núna á samdráttartímum, er að hér sé í landinu súrefni fyrir atvinnulífið, fjármagn í umferð fyrir atvinnulífið, fyrir sinn rekstur og fyrir sínar fjárfestingar. Það er þess vegna höfuðverkefni okkar. Það er líka gott og mikilvægt hvaða árangri það hefur skilað að breyta reglum hjá Seðlabankanum. Einnig náðist nokkur áfangi í sumar þótt hann hefði kannski mátt vera meiri í því að koma í veg fyrir algera stöðnun á fasteignamarkaði með aðgerðum á Íbúðalánasjóði. Ég held að hér hljótum við að taka til alvarlegrar skoðunar að afnema stimpilgjöldin með öllu til að reyna enn að koma á hreyfingu á þeim markaði.

Ég þakka líka stjórnarandstöðunni fyrir innlegg hennar í umræðuna hér í dag. Þau hafa mörg verið málefnaleg og efnislega góð en ég verð þó að segja að jafnmikil ástæða og er til að ræða efnahagsmál í dag hefur sjaldan verið jafnlítil ástæða til að leggja eyrun við málflutningi Framsóknarflokksins í þeim efnum. Upphrópanir flokksins í umræðunni og þá ekki síst formanns flokksins, Guðna Ágústssonar, á hringferð um landið síðustu vikur eru með nokkrum ólíkindum. Þar fer forustumaður þess flokks sem ber höfuðábyrgðina á ofþenslu á tilteknu skeiði með því að kosningaloforð hans um að gera allt fyrir alla ollu ofhitnun og þegar menn eru í miðju kafi við að takast á við eftirleikinn, eftirköstin af pólitík Framsóknarflokksins, og taka erfiðar ákvarðanir, m.a. í Seðlabankanum samkvæmt samningi sem Framsóknarflokkurinn sjálfur gerði við Seðlabankann, hleypst Framsóknarflokkurinn úr liði og sakar þá sem eru að taka til eftir hann um að vera vondu mennirnir. Þær upphrópanir eru auðvitað allar í anda lýðskrums því að það eru upphrópanir um vaxtalækkanir, aukin útgjöld og lægri skatta sem allur almenningur veit auðvitað að er ekki hægt að efna öll í einu og því síður á þrengingartímum eins og kunna að vera fram undan. Það er vinsælt að hrópa upp um vaxtalækkanir og það er ekki örgrannt um að kannski hafi hér verið mótuð röng stefna, svokölluð hágengisstefna, hávaxtastefnan sem m.a. hv. þm. Illugi Gunnarsson gerði lítið eitt að umfjöllunarefni. Það hefur gert henni sérlega erfitt fyrir hversu ólíkt menn hafa hafst að í Seðlabankanum annars vegar og í ríkisfjármálunum hins vegar. Hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi réttilega þenslu ríkisútgjalda á síðustu árum sem hefur verið alveg úr hófi fram og í algeru ósamræmi við þá stefnu sem Seðlabankanum var lögð en þar er auðvitað líka hin hliðin á teningnum, skattalækkanir á versta tíma fyrir framkvæmd peningastefnunnar.

Það má líka spyrja hvort tími lítillar flotmyntar eins og íslensku krónunnar í hinu alþjóðlega opna hagkerfi sé einfaldlega liðinn. Það má spyrja hvort verðtrygging íslensku krónunnar varni því algerlega að hér geti verið öflug og sterk peningamálastefna. Hvað sem öllu því líður hefur okkur ekki tekist það sem gerir það að verkum að við stöndum núna í nærri 15% verðbólgu. Og að fara um á þeim tímapunkti og hrópa um tafarlausar vaxtalækkanir og að það eigi að breyta stefnu Seðlabankans með löggjöf á Alþingi er einfaldlega fyrir neðan allar hellur og það er ekki hægt að taka alvarlega stjórnmálaflokk sem heldur því fram á Alþingi Íslendinga í dag. Vextirnir eru ekki vandamálið í þeirri verðbólgu sem við eigum nú við. Það er verðbólgan sjálf og henni verður að ná niður. Þó að við séum í tvísýnu eins og ég kallaði áðan og sumir kalla kreppu verður ekki fram hjá því horft að í dag til að mynda birtust fréttir um það að á fyrstu sex mánuðum ársins fluttust hingað til lands 4.500 erlendir ríkisborgarar umfram þá sem fluttust frá landinu. Hér hefur sem sagt streymt inn erlent vinnuafl, 200 nýir verkamenn í hverri viku frá áramótum, og það er ekki hægt að kalla kreppu, það er heldur ekki hægt að kalla samdrátt. Þetta eru nýjustu fáanlegar tölur. Langt fram eftir árinu vorum við enn að setja met í innflutningi á bifhjólum og bifreiðum. Hallinn á viðskiptunum við útlönd er enn til staðar og það er einfaldlega of snemmt að lækka vextina þótt það kunni að hljóma til vinsælda fallið að hrópa um það einmitt nú því að auðvitað er ekkert atvinnulíf sem til lengdar getur lifað við það vaxtastig sem við höfum í dag. Og auðvitað getur almenningur ekki búið við þetta vaxtastig sem er í dag.

En einmitt núna ríður á að standa í lappirnar og það er þess vegna sem menn í lýðræðislegum markaðssamfélögum hafa hneigst til þess að gera seðlabanka sjálfstæða. Við höfum gert það, gerðum það árið 2001 og af ástæðu. Það er gert af þeirri ástæðu að það er niðurstaða þeirra færustu manna að það þurfi að forða almenningi frá framsóknarmönnum allra landa, forða þeim frá því að hlaupið sé til og vextirnir lækkaðir áður en menn hafa náð tökum á verðbólgunni. Það er óþægilegur sannleikur og það er kannski ekki til vinsælda fallið en það þarf að ná verðbólgunni niður áður en hægt er að lækka vextina. Þá er líka mikilvægt að það gerist hratt og að allir aðilar stefni sameiginlega að því markmiði sem hæstv. forsætisráðherra hefur lýst fyrir (Forseti hringir.) efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, að ná þeim skilyrðum í íslensku efnahagslífi sem eru skilyrðin fyrir upptöku evrunnar, þ.e. þeim stöðugleika sem okkur hefur nú allt of lengi skort.