135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[18:30]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum vakið máls á því fyrr í þessari umræðu að málflutningur fulltrúa stjórnarflokkanna hefði verið býsna ólíkur og nú undir lok ræðu sinnar kemur hv. þm. Helgi Hjörvar, 7. þm. Reykv.n., ekki fyrstur þingmanna Samfylkingarinnar, með málflutninginn um evruna. Jafnvel þó að hann hafi af klókindum orðað það þannig að við þyrftum að uppfylla skilyrðin fyrir upptöku evrunnar var auðvitað ekki hægt að skilja orð hans á annan veg en þann að í því ætti að felast einhvers konar lausn til að ná niður verðbólgunni til þess að síðan væri hægt að ná niður vöxtum. Ég ætla því að inna hann eftir því hvort það sé rétt skilið hjá mér að það sé viðhorf hans, eins og t.d. hv. þm. Árna Páls Árnasonar, að það sé ein af kannski ekki patentlausnunum því að við erum sammála um að það sé ekki patentlausn en ein af mikilvægu lausnunum við þeim aðsteðjandi vanda sem við er að glíma í efnahags- og atvinnulífinu að taka upp evru og kasta krónunni.