135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[18:32]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það hefur verið gert nokkuð af því hér í umræðunni að reyna að draga upp þá ólíku sýn sem stjórnarflokkarnir hafa. Auðvitað hafa stjórnarflokkarnir ólíka sýn. Annar þeirra er Sjálfstæðisflokkurinn og hinn er Samfylkingin, það eru mjög ólíkir flokkar. Þeir hafa hins vegar náð saman um verkefnin á þessu kjörtímabili.

Það er alveg ljóst hvað Sjálfstæðisflokkinn varðar að til lengri framtíðar hefur hann ríkari áherslu á stóriðjustefnu en Samfylkingin mundi nokkurn tíma hafa. Það er sömuleiðis þannig til lengri framtíðar að Samfylkingin horfir til Evrópusambandsins sem Sjálfstæðisflokkurinn gerir ekki, a.m.k. ekki enn. Þetta eru hugmyndir flokkanna um langtímaleið okkar til varanlegs hagvaxtar í aðalatriðum. Það breytir því ekki að á þessu kjörtímabili liggur alveg fyrir hvaða stóriðjuverkefni kunna að verða. Það á ekki eftir að taka neina pólitískar ákvarðanir um álver sem reisa á á þessu kjörtímabili, og menn eru sammála um það leiðarljós efnahagsstefnunnar, sem Geir Haarde hefur lýst, að ná hér þeim stöðugleika í íslensk efnahagsmál sem duga til þess að við gætum gengið inn í evrópska myntsamstarfið. Það eru kröfur um stöðugleika í ríkisfjármálum, stöðugleika í vöxtum, stöðugleika í viðskiptum við útlönd og stöðugleika í verðbólgu og ég held að það sé sannarlega mikilvægt að flokkarnir hafa náð saman um það og að þeir eru samhentir í þessu verkefni þetta kjörtímabil þó að þeir hafi ólíka sýn til langframa um uppbyggingu hagvaxtar á Íslandi.