135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[18:34]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði að þetta væru ólíkir flokkar og það má til sanns vegar færa en þeir hefðu náð saman um verkefnin á þessu kjörtímabili. Eins og þetta mál blasir við þjóðinni hafa þessir flokkar alls ekkert náð saman um verkefnin á þessu kjörtímabili því að það kemur fyrir ítrekað í sölum Alþingis og úti í samfélaginu, í fjölmiðlum, að talsmenn flokkanna, ráðherrar flokkanna eru með yfirlýsingar sem ganga hver á aðra, ganga alls ekkert upp. Það er ekkert eitt mál eða tvö eins og oftlega hefur verið bent á hér í þessum sal. Það er það sem blasir við.

Þegar við tölum um alvarlega hluti eins og þá stöðu sem við erum í í efnahagsmálum í dag og lögð er áhersla á það að reyna að ná saman einhvers konar þjóðarsátt eða samstöðu í samfélaginu um aðgerðir er auðvitað mjög mikilvægt að menn tali einum rómi, ef svo má segja, ekki síst ríkisstjórnin. Það sem við gagnrýnum hér er að jafnvel þó að flokkarnir hafi hvor sína stefnuna og ekki ætla ég að mótmæla því eða gera lítið úr því að það sé eðlilegt, þá verða þeir engu að síður að tala með trúverðugum hætti einni röddu. Það gera þeir ekki. Þess vegna eru þeir í raun að grafa undan þessum trúverðugleika sem er svo mikilvægur og við höfum öll verið að tala um, þeir eru að grafa undan því að samfélagið allt, allir aðilar sem þurfa að koma að málum, beri traust og trúnað til þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr.