135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[18:36]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Enn verður það hér að umfjöllunarefni að stjórnarflokkarnir eru ekki sammála í öllum málum og hafa ekki dregið neina dul á það að þetta eru tveir ólíkir flokkar.

Það sem við fjöllum um eru efnahagsmál þjóðarinnar og það sem ég hef reynt að gera hv. þingmanni grein fyrir er að forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar, Geir Hilmar Haarde, hefur lýst því efnahagslega markmiði sem þessi ríkisstjórn starfar að sem er að ná inntökuskilyrðunum inn á evrusvæðið, tölusettum mælanlegum markmiðum um helstu lykilþætti í hagstjórninni. Um það er fullur einhugur í ríkisstjórn Íslands.

Ég kannast ekki við að þar sé neinn því andsnúinn þannig að ég fæ ekki séð að fullyrðingin, þó að hún kunni að eiga við á sviði hvalveiða t.d. eða einhverra annarra mála sem menn hafa haft skiptar skoðanir á, eigi við nein rök að styðjast þegar kemur að því máli sem við ræðum hér og skiptir þjóðina mjög miklu nú sem er efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra hefur einfaldlega skilgreint þau meginmarkmið sem þar er verkefnið að ná og það er auðvitað á endanum stöðugleikinn sem okkur er svo mikils virði. Ég held að unnendum íslensku krónunnar hljóti að vera orðið nokkurt umhugsunarefni hvort það sé ekki að verða fullreynt eftir liðlega 60 ár að honum verði náð með því tæki og kannski líka hvort krónan hafi ekki verið tæki sem hentaði þeim atvinnuvegum sem við vorum að byggja upp þá, sjávarútveg og stóriðju, sveiflugreinum sem skipti miklu máli að hefðu mikla aðlögun, meðan aftur evran er miklu nýtilegra tæki fyrir nýsköpun, (Forseti hringir.) fyrir þekkingariðnað, fyrir sígandi lukku (Forseti hringir.) fyrir vaxtargreinar þær sem við nú viljum leggja áherslu á og börnin okkar vilja starfa í.