135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[18:57]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Örfá atriði í ræðu hv. þm. Ólafar Nordal sem ég vil leggja aðeins út af. Í fyrsta lagi sagði hún í upphafi að það hefði komið fram í þessari umræðu hér hjá öllum að það væru engar patentlausnir til. Ég er sammála því og það höfum við m.a. sagt í stjórnarandstöðunni. Hins vegar er þetta enn eitt dæmið um ólíkan málflutning stjórnarflokkanna því að hæstv. utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, kom hér með miklum gassagangi í ræðustól og áfelldist okkur, sérstaklega Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, fyrir að vera með upphrópanir um patentlausnir sem við höfum alls ekki verið með í okkar málflutningi. Þó við tölum stundum hátt og hvellt þannig að heyrist í af því að það er stundum nauðsynlegt, þá höfum við ekki verið með ómálefnalegan málflutning um einhverjar patentlausnir þannig að hér er enn eitt dæmið um málflutning stjórnarflokkanna sem stangast á.

Hv. þingmaður sagði að það væri ekki ráðlegt að auka ríkisafskipti á þessum tímum. Í mál hv. þm. Illuga Gunnarssonar kom fram að á undanförnum árum hefðum við einmitt verið með ofþanin ríkisútgjöld. Ég er þeirrar skoðunar að ef það er eitthvert tímabil sem menn eiga heldur að halda í við sig í ríkisútgjöldum og ríkisfjármálum þá er það á þenslutímum eins og hafa verið undanfarin ár sem við gerðum ekki. Og hvenær eiga opinberir aðilar þá að spýta í ef ekki einmitt þegar það er samdráttur, til að vega upp sveifluna? Það er mín afstaða og það eru hagfræðikenningar á bak við það sem ég held að séu almennt viðurkenndar.

Þingmaðurinn sagði að ríkisrekstur væri eitt en framkvæmdir annað. Ég velti því fyrir mér hvort þingmaðurinn sé sem sagt að tala um að það sé fínt að leggja í framkvæmdir en síðan eigi einkaaðilar að sjá um allan reksturinn.