135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[18:59]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg tekið undir það að ríkisútgjöld hafa verið mjög veruleg á undanförnum árum. Ég get alveg tekið undir þá gagnrýni sem hefur tekið fram víða. Hins vegar við þær aðstæður sem nú eru og það er alveg rétt að hagfræðin segir okkur það að þegar að syrtir þá eigi ríki að koma inn. En það er bara ekki sama hvernig það er gert og það er það sem ég var að tala um. Það er ekki sama hvers konar framkvæmdir ríkið fer í. Það er langheppilegast við tímabundnar framkvæmdir eins og t.d. í samgöngumálum. Það er miklu heppilegra en t.d. framkvæmdir sem kalla á mikinn mannafla og mikinn rekstur. Um leið og það gerist aukast líka ríkisútgjöldin umfram það sem þau eru nú þegar. Það er þetta sem ég á við. Að þetta sé tímabundið en ekki eitthvað sem við vitum ekki alveg hvernig verður í framtíðinni. Ef við t.d. förum og byggjum skóla, svo ég taki sem dæmi, þá þurfum við líka að reka hann og þar með er komið langtímaverkefni. Ef hins vegar er ákveðið að byggja t.d. brú þá er það tímabundið verkefni og ríkið kemur inn og fer út aftur. Það er þetta sem ég var að reyna að segja.

En varðandi hið fyrra sem hv. þingmaður sagði og hefur skemmt sér mjög vel við það núna um eftirmiðdaginn, að draga fram ágreining í stjórnarflokkunum liggur mér við að segja, þá held ég samt sem áður að það sé svo þegar maður hlustar á þær umræður sem hafa verið úti í heimi þá hafa menn engar patentlausnir á þeim efnahagsvanda sem að okkur steðjar í vestrænum heimi núna. Menn vita að þeir þurfa að þreyja þorrann. Það er það eina sem hægt er að gera og halda áfram á þeirri braut sem við erum, ekki fara skipta um hest í miðri á.