135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[19:01]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það fer nú alveg eftir því hvaða hestur það er, hvaða aðstæður eru og hvernig boðaföllin eru í ánni hvort það borgar sig að skipta um hann. Ef hesturinn er t.d. núverandi ríkisstjórn getur vel verið að það borgi sig að skipta um hann. En það er annað mál. (Gripið fram í.)

Varðandi það sem þingmaðurinn sagði hér um framkvæmdir, að það skipti máli hvers konar framkvæmdir eða hvers konar útgjöld hins opinbera væri um að ræða á samdráttartímum, get ég alveg tekið undir það. Það skiptir máli. En það má ekki gleyma því að framkvæmdir eins og samgönguframkvæmdir kalla líka á rekstur. Það að byggja brú kallar að sjálfsögðu á að það þarf að reka það samgöngumannvirki. Fjárfesting í fjarskiptum kallar líka á rekstur og þess vegna spyr ég hv. þingmann: Er þingmaðurinn að ýja að því að þennan rekstur eigi síðan að fela einkaaðilum? Á þingmaðurinn við það með þessu?

Svo er líka annað sem ég vil leggja áherslu á í þessu sambandi og sérstaklega vegna þess að það hefur komið aðeins fram í þessari umræðu hér, ekki hjá hv. þm. Ólöfu Nordal heldur aðeins fyrr hjá kollega hennar úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins, að það verði að skapa verðmæti, það verði að hugsa um það og þess vegna séu ríkisafskiptin ekki lausnin. Sannleikurinn er auðvitað sá að það er margt í ríkisrekstrinum sem er verðmætasköpun í sjálfu sér. Það að fjárfesta í innviðum í samgöngumálum er verðmætasköpun. Það að reka háskóla er verðmætasköpun jafnvel þótt ríkið geti það. Það heldur því væntanlega enginn fram að engin verðmætasköpun sé fólgin í rekstri Háskóla Íslands. Ég trúi því ekki.

Menn mega ekki tala svona í svart/hvítu eins og að ekki geti verið heilmikil verðmætasköpun fyrir samfélagið þótt það séu opinberir aðilar, ríki eða sveitarfélög eða samstarfsverkefni af ýmsum toga, félagslegur rekstur eða eitthvað þess háttar, sem eiga í hlut.