135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[19:03]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held ekki að ég hafi sagt að ekki væru verðmæti fólgin í því sem ríkið gerir. Ég hélt að ég hafi einmitt sagt að menntunin sé eitt það dýrmætasta sem við eigum og að meginstofni til er menntakerfið ríkisrekið. Þar eigum við að hlúa að framtíðinni. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að það eigi að nýta einkaframtakið þar eins og hægt er. Ég sé ekkert athugavert við það.

Varðandi þetta dæmi, hvort ég hafi lagt það til að brýr yrðu þá í einkarekstri eða hvernig sem hv. þingmaður orðaði það, er ég náttúrlega ekkert hrædd við það að brýr séu í einkarekstri. Reyndar hefur ekkert verið á döfinni að einstök brú verði sett í einkarekstur. Ég átta mig ekki alveg á því í hverju það felst. Er það þá þannig að maður geti lokað brúnni? Eða í hverju felst …? (Gripið fram í.) Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur svo mikið hugmyndaflug í því sem ég var að segja. Hann leggur út af því á mjög skemmtilegan hátt.

Ég sagði bara númer 1, 2 og 3 að þau verkefni sem ríkið fer í á þrengingartímum eigi að vera eins tímabundin og hægt er. Ekki að fara í verkefni sem krefjast ægilega mikils rekstrarkostnaðar, t.d. mannaflafrek verkefni með afbrigðum. Ég held að það sé mun lakara en ef t.d. ríkið færi í samgöngumannvirki sem ég held að við félagar í samgöngunefnd getum verið afskaplega sammála um að sé eitt af brýnustu verkefnunum sem blasa við í landinu.