135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[19:06]
Hlusta

Alma Lísa Jóhannsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við skulum vona að veturinn verði stuttur og vorið komi hratt og verði hlýtt þannig að við getum komið betur út úr þessu en nú horfir.

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra skýrsluna, og umræðurnar í dag voru mjög fróðlegar. Það sem mig langar að gera að umræðuefni er efnahagsstefnan og áhrif hennar fremur en að fara út í miklar umræður um Seðlabanka og annað.

Fram kom í ræðu hæstv. forsætisráðherra að hér væru lífskjör jafngóð og fyrir tveim árum. Staðreyndin er sú að á undanförnum árum hefur ójöfnuður aukist. Skattbyrði hefur aukist á fjölskyldur með meðal- og lágtekjur. Kaupmáttur þeirra hefur rýrnað. Og tekjur launþega bera nærri fjórum sinnum hærri skatta en tekjur sem fólk hefur af fjármagnseign sinni. Það fólk sem hefur einungis fjármagnstekjur og greiðir ekki útsvar tekur ekki þátt í að fjármagna þjónustu sem það nýtur í nærsamfélaginu þrátt fyrir að njóta hennar. Þetta er staðreynd sem við sjáum.

Á undanförnum missirum höfum við horft á verðbólguna æða upp í 14,5% við síðustu mælingu. Vextir eru með því hæsta sem við sjáum í Evrópu og skuldir heimilanna einnig. Skuldaaukning þeirra hefur verið hröð og mikil. Og hver hafa svo viðbrögð ríkisstjórnar verið við þessu? Þau hafa verið að rífast um upptöku evru. Hvers konar lausn er það á vanda sem blasir núna við heimilunum í landinu? Kannski eru þetta bara viðbrögð til að dreifa athygli frá því sem máli skiptir, tíðræddu aðgerðaleysi og máttleysi undanfarinna mánaða. Umræða um Evrópusamband og upptöku evru skilar fjölskyldunum í landinu engum lausnum eins og er og er ekki til þess gerð að auka trúverðugleika. Það er ekki það sem skiptir máli fyrir almenning.

Hvað er það þá? Það hlýtur að vera að sjá viljann í verki, er það ekki? Að hafa einhvers konar upplifun af því að Samfylkingin, jafnaðarflokkurinn okkar og félagshyggjuflokkurinn, standi við stóru orðin, núna í miklum meira hluta á Alþingi. Og það hryggir mig að heyra þær köldu kveðjur sem hæstv. forsætisráðherra sendi launafólki um að taka á sig kjaraskerðinguna í kreppunni — eða aðþrengingunni. Hvar eru loforðin um að bæta kjör kvennastétta? Og hvernig er staðan hjá ljósmæðrum í dag?

Það skiptir máli fyrir almenning að hafa eins konar upprifjun á því að það sé félagshyggjuflokkur við stjórnvölinn, að verða vitni að því og finna það á peningaveskinu að það sé verið að gera eitthvað, núna þegar vöruverð hækkar, verðtryggð lán rjúka upp við hæstu vexti í heimi og kaupmáttur launa rýrnar. Ég vænti þess að ríkisstjórnin fari að skipta kökunni með sanngjarnari hætti.

Núna, eins og aðstæður eru í dag, er tími til þess að treysta innviði samfélagsins, styrkja sveitarfélögin, efla velferðar- og heilbrigðiskerfið og tryggja að allir hafi sama rétt til þátttöku, að við getum öll notið menntunar, velferðar og heilbrigðis. Grunnþjónusta samfélagsins er forsenda framfara og velmegunar. Tekjuskiptingu sveitarfélaga þarf að laga en hún er í engu samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögin eru að sinna. Íbúum margra sveitarfélaga er mismunað eftir búsetu. Þeir sitja ekki við sama borð og aðrir hvað varðar samgöngumál, aðgengi að þjónustu og kostnað við það eitt að lifa.

Og nú stendur til að hagræða. Trúarbrögðin eru slík að reynsla annarra þjóða er gerð að engu. Rannsóknir sem sýna að einkavæðing er engin hagræðing, að hún skilar ekki bættri þjónustu, að einkavæðing hafi neikvæð áhrif á aðgengi þegar horft er til búsetu eru hafðar að engu. Þetta er lausnin fyrir fjársvelt heilbrigðiskerfi í tíð sjálfstæðismanna.

Mér líður stundum þegar ég horfi á fréttir og umsagnir stjórnarþingmanna um ástandið í efnahagsmálum eins og við séum stödd hvert í sínum veruleikanum. Það virðist ekki vera mikill skilningur á aðstæðum fólks. Grundvöllur þess að geta komið til móts við fólk er að skilja fólk, skilja þarfirnar og aðstæður þess. Í stað þess að gera það virðist landstjórnin vera að tína heilbrigðis- og velferðarkerfið í sundur þar sem hentar án þess að hún virðist velta fyrir sér afleiðingunum. Þessi glórulausa einkavæðing í opinberum geira mun skila einni niðurstöðu. Hún mun auka ójöfnuð. Grunnþjónustan okkar á að vera aðgengileg öllum og ég vænti þess að Samfylkingin fari að standa vaktina sem jafnaðarflokkur, félagshyggjuflokkur, fari að standa við stóru orðin í kosningabaráttunni fyrir liðlega ári síðan. Ég vænti þess.

Hæstv. forsætisráðherra segir að við þurfum öll að búa okkur undir tímabundnar fórnir og minnkandi kaupmátt, að það sé mikilvægt að almenningur sýni skilning á þessum aðstæðum. Á sama tíma hefur ríkisstjórnin ekki tekið ákvörðun um hvort hún ætli að afnema sérréttindi þingmanna. Á sama tíma. Geta menn í alvöru horft framan í almenning og sagst vera að gera allt sem í þeirra vanda stendur til að leysa þann vanda sem blasir við þjóðinni? Ætla menn ekki að byrja á að taka til í eigin ranni?

Hver er svo staðan fyrir hinn almenna launamann? Opinberir aðilar hafa hækkað gjaldskrár. Forsenda kjarasamninga er brostin. Vextir er í hæstu hæðum, verðbólga sögulega há, sömuleiðis skerðing lífskjara og fyrir marga mjög óöruggt atvinnuástand. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar um það sem við verðum að gera eru m.a. að almenningur eigi að sýna aðhald og spara. Það eru bara ansi margir sem hafa ekkert til að spara. Við erum ekki öll á sama báti. Það hefur Sjálfstæðisflokkurinn tryggt.

Hverjar eru hugmyndir ríkisstjórnar að lausnum aðrar en evra? Jú, það er álver, virkja eins og það sé guðsgjöf til Íslendinga að ganga á náttúru okkar og menga umhverfið. Er þetta Fagra Ísland? Það hlýtur að vera hægt að leita lausna, annarra lausna og tryggja fjölbreytileika í atvinnulífi og skapa aðstæður fyrir innlendar fjárfestingar, treysta t.d. á innlendan landbúnað í stað þess að ganga á vaxtarmöguleika hans og heimila innflutning á erlendu kjöti.

„Framleiða, framleiða, framleiða,“ svo að ég vitni eins og margur annar í hæstv. forsætisráðherra um nýtingu auðlinda okkar. Málið er bara það að auðlindirnar fara ekki neitt. Þær eru verðmætar í sjálfum sér og eins og hæstv. utanríkisráðherra benti hér réttilega á ber okkur að fara varlega í að virkja. Þær verða verðmætari með tímanum. Það er ekkert aftur snúið þegar við erum búin að sökkva sveitum landsins og auðlindum okkar. Við verðum að leita annarra lausna, vinna með samstarfsflokkunum okkar, hagsmunaaðilum á vinnumarkaði, öllum þeim sem vettlingi geta valdið til þess að leysa þetta ástand. Það sem máli skiptir er að leita lausna saman, komast að þjóðarsátt til jöfnunar fyrir almenning um að skerða ekki lífskjör almennings og efla atvinnulíf þannig að við sitjum öll við sama borð.