135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[20:08]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að endurtaka ræðu hæstv. forsætisráðherra frá því í dag. Ég hvet þingmanninn til að kynna sér hana betur og fá þá glöggar upplýsingar um þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til.

En hvort það felst í því að allir megi róa til fiskjar — sú breyting sem hefur orðið hjá þessari dugmiklu þjóð, að mega það ekki lengur, er ákvörðun sem tekin var af mikilli skynsemi.

Fiskstofnarnir í hafinu kringum landið eru takmörkuð auðlind. Það lá fyrir á sínum tíma þegar farið var út í kvótakerfi á helstu nytjastofnum okkar að annars yrði um ofnýtingu að ræða. Ég veit vel að stefna Frjálslynda flokksins og hv. þm. Jóns Magnússonar er sú að auka frelsi manna til atvinnu á þessum vettvangi og mörg skref hafa verið stigin og miklar aflaheimildir verið færðar til þeirra sem eru minni í þessum greinum frá þeim stærri. Hlutur smábátasjómanna hefur aukist mjög mikið af heildarkökunni ef litið er til þess. En þessu verður ekki stjórnað öðruvísi en með takmarkaðri sókn. Menn geta síðan tekist á um aðferðafræðina við það. Lengi hefur verið rætt um breytingar á henni en menn hafa ekki komist að betri niðurstöðu en þeirri sem við búum við í dag.

Hvað á að framleiða? Á að leyfa meiri þorskveiði og framleiða þannig meiri sjávarafurðir? Það væri bara eins og að pissa í skóinn sinn, hv. þingmaður.

Ég er að tala um iðnaðarframleiðslu. Ég sagði í ræðu minni áðan að tækifærin lægju í orkunýtingu og eflingu iðnaðarframleiðslu. Ég lít á það sem tækifæri til að styrkja stoðir atvinnulífsins við hliðina á (Forseti hringir.) öflugum sjávarútvegi.