135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[20:15]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði í ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem vöktu mig til umhugsunar og mig langar til að eiga orðastað við hann um.

Í fyrsta lagi talar hann um stóriðjuna og álverin og segir að það sé ábyrgð þeirra sem eru gagnrýnir á þá atvinnuuppbyggingu að benda á eitthvað annað. Gott og vel. Við getum auðvitað tekið þá umræðu en ég hlýt að spyrja um leið: Hver er ábyrgð — eða er hún kannski engin — stjórnarþingmannanna sem tala fyrir áli og áli og áli á alþjóðasáttmálum um losun gróðurhúsalofttegunda? Berum við enga ábyrgð þar? Ber stjórnarliðið enga ábyrgð þar? Eru það hinir, gagnrýnendurnir, sem eiga að bera ábyrgð á alþjóðlegum skuldbindingum? Hv. þingmaður segir líka: Stóriðja er það sem dugar og er þar með að segja að það sé það sem leggja eigi höfuðáherslu á. En um leið sagði hann líka, ég hjó eftir því í ræðu hans, að það mætti ekki setja öll eggin í sömu körfu. Þegar við horfum á landsframleiðslu í dag og hvernig hún er samsett og gjaldeyristekjur af atvinnuvegum, þá hljótum við að spyrja hvort ekki sé komið nóg af því og að við þurfum að fara að fá okkur fleiri körfur undir eggin.

Að lokum ætla ég að segja þetta: Ræða hv. þingmanns var að stórum hluta til samfelld árás á hæstv. umhverfisráðherra vegna ákvörðunar ráðherrans um sameiginlegt umhverfismat vegna framkvæmda á Bakka. Hér er enn eitt dæmið um það í dag að stjórnarliðar tala ekki einni röddu. Hér kemur þing saman mánuði fyrr en venjulega að hausti. Við höfum gagnrýnt ríkisstjórnina, stjórnarandstaðan, fyrir aðgerðaleysi og bragðdeyfð í allt sumar og vor. Kannski er það vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki getað komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut og það endurspeglast í umræðunni í dag.