135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[20:19]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að það var sá sem hér stendur sem var í andsvari við þingmanninn en ekki hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Ég fagna því sem þingmaðurinn sagði um að það hvarfli ekki annað að honum en að við eigum að taka þátt í því að standa undir alþjóðlegum skuldbindingum hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda en hann sagði síðan: „en við gerum það ekki í ríkari mæli eða meiri mæli en aðrar þjóðir“. Má þá benda á og minna á að Íslendingar hafa fengið sérstakar undanþágur í Kyoto-samkomulaginu sem gera það að verkum að við getum leyft okkur meira í þeim efnum en aðrar þjóðir. Okkur ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði að standa við þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist þar en það er alveg ljóst að skuldbindingar okkar í Kyoto-samkomulaginu leyfa ekki þá endalausu og látlausu stóriðjuuppbyggingu sem stjórnvöld hafa talað um.

Síðan vil ég minna á það þegar þingmaðurinn segir núna að þetta hafi ekki verið nein sérstök árás á umhverfisráðherra að hann sagði að í ræðu sinni væru skýr skilaboð til þeirra sem færu með völdin og var í því sambandi að tala um úrskurð umhverfisráðherra vegna Bakka og ekki er hægt að skilja það öðruvísi en að í orðum hans hafi falist hávær gagnrýni á ákvörðun umhverfisráðherra, enda hefur hún líka komið frá öðrum þingmönnum úr röðum Sjálfstæðisflokksins, ekki endilega í þessari umræðu núna heldur á undanförnum dögum og vikum eða frá því að sá úrskurður féll. Það sem ég er að benda á í þessu sambandi er að ríkisstjórnin mætir til leiks í upphafi þings fullkomlega ósamstæð og það endurspeglar eða er til vitnis um það að hún hefur ekki komið sér saman um hvað gera eigi í efnahagsmálunum til þessa og hefur ekki enn. Svona mætir hún til þings og það er ekki góð byrjun á þessu hausti.