135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[20:21]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki farið dult með þá skoðun mína að ég er ósáttur við ákvörðun umhverfisráðherra í þessum efnum varðandi Bakka. Ég hef fært rök fyrir því hér að mér finnist eina skynsamlega leiðin í þeim efnum vera sú að hún dragi þessa ákvörðun sína til baka og farið verði miklu betur yfir afleiðingar þess ferlis sem felst í sameiginlegu mati eins og þarna er verið að taka ákvörðun um. Afleiðingar þess eru mjög óljósar og skilaboðin mjög misvísandi og eru verulega miklar áhyggjur af því heima í héraði að þetta hafi slæmar afleiðingar bæði í tíma og náttúrlega fjárhagslega líka.

Orkunýting þarf ekki endilega að vera til fyrirtækja sem menga mikið. Við erum nýbúin að missa úr landi kannski út af misvísandi skilaboðum fyrirtæki, sem hefði skapað um 300 störf á Suðurlandi, þar af um 150 hátæknistörf, sem er mjög umhverfisvænt en það krafðist orku — það var grundvöllurinn að því — og kannski annarra hluta sem nauðsynlegir eru fyrir slíka starfsemi. Það eru óljós skilaboð um að það sé m.a. vegna misvísandi skilaboða úr stjórnkerfinu að það tók annan valkost. Svona fyrirtæki eru ekkert að leika sér, þau eru í alvarlegum viðskiptum. Þetta eru fyrirtæki sem eru að fara í milljarðafjárfestingu til að hagnast og við höfum tækifæri til að bjóða þeim orku sem við eigum til í landinu. Okkar sóknarfæri liggja þar og um það verðum við að sameinast.

Ég óska bara eftir því að þeir hv. þingmenn sem taka þátt í þessari umræðu og vilja fjalla um þessi mál af skynsemi geri það á þeim nótum að þeir komi með dálítið raunhæfar hugmyndir að því hvaða atvinnustarfsemi á að byggja upp hér ef þeir eru ekki sáttir við að fara þessa leið. Það er ákaflega mikilvægt og það er mjög mikilvægt að sú umræða sé tekin áður en farið er að rífa niður þá ágætu vinnu (Forseti hringir.) sem þegar er búið að leggja grunninn að.