135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[20:24]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég tel að umræðan í dag hafi að mörgu leyti verið ákaflega góð. Það var vel til fundið að byrja á því að fjalla um stöðu efnahagsmála því að það verður að viðurkennast að það eru óveðursský á lofti sem hafa hrannast upp. Við horfum því miður fram á það að verðbólga er hér meiri en hún hefur verið í langan tíma og við horfum líka fram á það að rekstrarkostnaður fyrirtækja er orðinn mjög hár, samkeppnisstaða þeirra versnar, og við heyrum af því að það eru uppsagnir víðs vegar og á ýmsum sviðum atvinnulífsins sem veldur manni auðvitað miklum áhyggjum.

Það er samt sem áður svo að þrátt fyrir að Ísland sé eyja erum við ekki eyland í þessum efnum. Í dag kom það fram í viðtali við fulltrúa greiningardeildar hjá einum viðskiptabankanna að í samanburði við önnur lönd værum við á sumum sviðum betur stödd en sum önnur. Í því samhengi voru nefnd Danmörk, Bandaríkin og Bretland og tekið fyrir t.d. lækkun fasteignaverðs sem hefur þó verið miklu meiri í þessum löndum en hér á landi og voru nefndar tölur í kringum 15% á meðan lækkun hér hefur verið í kringum 2% að raungildi.

Það sem hefur líka gerst í kringum okkur er að lánsfjárkreppan hittir flestöll lönd fyrir, ekki öll, að sjálfsögðu ekki olíuríkin í það minnsta. Þetta kemur illa niður á okkur og þetta er að koma illa niður á þeim löndum sem ég minntist á áðan. Þetta hefur m.a. skilað sér í því að bankar eru farnir að fara á höfuðið eins og í Danmörku og við höfum líka séð það í Bandaríkjunum og Bretlandi. Sem betur fer höfum við ekki horft fram á það hér á landi enn sem komið er en auðvitað má segja að vandræði einstakra sparisjóða lykti af því að þeir hafi verið komnir að fótum fram, því miður. Að sumu leyti má segja að stærsti banki landsins hafi sem betur fer haft styrk til að koma þar inn.

Það sem valdið hefur þessu slæma ástandi er, eins og ég kom inn á, lánsfjárkreppan og hækkanir á hrávöruverði en sem betur fer sjáum við það nú ganga mjög hratt til baka og ef að líkum lætur ætti það að bæta ástandið í löndunum í kringum okkur og þá hjá okkur líka um leið, en við erum alveg gríðarlega háð því að bati verði hjá stórveldum eins og Bandaríkjunum og Bretlandi til að við náum bata hér. Við erum mjög háð því. Olían lækkar mjög hratt, kornið lækkar mjög hratt og við sjáum sem betur fer að áburðarverð er líka að lækka sem bendir til þess að matvöruverð muni fara lækkandi, olíuverð muni jafnframt fara lækkandi sem ætti síðan að skila sér út í aðra orku eins og raforku.

Þessi ágæti fulltrúi bankans kom líka inn á að það væru góð tíðindi sem hér hefðu komið fram í dag um 30 milljarða kr. lánið, það væri mjög góð viðbót. Hún sagði að búið væri að gera heilmikið til að bæta stöðu atvinnulífsins og stöðu efnahagsmála og tók sem dæmi mikla aukningu á gjaldeyrisforða þjóðarinnar og þetta væri góð viðbót þar á og mjög mikilvæg tíðindi.

Það sem hefur truflað mann mikið er í rauninni hvernig þetta hefur snúið sérstaklega að okkur. Við getum talað um það sem gerðist í kringum okkur og kennt því um en því er ekki bara um að kenna. Eitt af því sem við höfum gert á Íslandi er að við höfum verið ákaflega dugleg við að taka erlend lán og það sem meira er, við höfum byggt upp kerfi sem hefur hvatt til erlendrar lántöku. Það sjáum við í því að hin mikla svokallaða jöklabréfaútgáfa er í rauninni ekkert annað en rándýr lán til þjóðarinnar. Það er svo merkilegt að þegar vextir eru hækkaðir hér á landi leiðir það til aukinnar neyslu. Það hljóðar býsna mótsagnakennt en það verður auðvitað til þess að erlendir aðilar fara að gera út á vaxtamismun hér á landi og þess vegna streymir gjaldeyrir inn í landið sem aftur verður til þess að við erum að drena íslenska hagkerfið um sennilega milljarðatugi á ári hverju, sem við erum að borga í leigu fyrir þetta fjármagn. Það er mjög slæmt að þurfa að drena afkomu okkar með þeim hætti. Ég hef hins vegar sagt að það hafi verið svolítið sérstakt á sínum tíma að Seðlabankinn ýtti í rauninni undir þessa þróun með sífelldri hækkun stýrivaxta og mér sýnist að jöklabréfaútgáfan hafi blómstrað þegar stýrivextir voru í kringum 12–13% og jafnvel neðar. Þess vegna á ég líka mjög erfitt með að átta mig á þessu. Ég geri mér vissulega grein fyrir að Seðlabankinn er í vanda staddur því að sagt er að með lækkun stýrivaxta verði jöklabréfin leyst út einn, tveir og þrír en ef menn voru að gera út á þessi jöklabréf í 12–13% vöxtum af hverju skyldu skilaboð um einhverja lækkun á vöxtum inn í framtíðina vera svo slæm þó ekki væri nema um hálft prósent? Fyrirtækin hér þola ekki þetta háa vaxtastig. Þó svo að við séum með vel rekin fyrirtæki, fyrirtæki sem ekki hafa tekið þátt í þessari miklu skuldsetningu, bara þokkalega stæð fyrirtæki geta ekki rekið sig á 20% vöxtum, 15,5% stýrivöxtum plús álag bankanna, jafnvel 25% þegar komið er út í yfirdráttarvexti. Þetta eru alveg hrikalegar upphæðir og það sér hver maður að afkoma fyrirtækjanna þarf að vera rosalega góð til að standa undir þessu. Þess vegna tel ég bráðnauðsynlegt að þau fari að sjá eitthvert ljós fram undan. Og rétt eins og ég hef sagt að Seðlabankinn hafi horft upp á þetta og ekki tekið á þessu þá finnst mér einhvern veginn þegar verið er að tala um það núna að hér sé lítið atvinnuleysi að þá séu það tölur í fortíðinni. Við þurfum að fara að horfa á tölurnar sem fara að koma inn núna á næstu fimm mánuðum. Hverjar verða þær? Hverju eru menn að spá þar? Það hlýtur að skipta öllu máli.

Við sjáum fram á fjölda uppsagna hjá fyrirtækjum sem ekki eru komnar til framkvæmda og við þetta vaxtastig er ég alveg sannfærður um að fleiri fyrirtæki munu þurfa að hagræða eða eiga svo erfitt uppdráttar að við munum sjá fram á enn frekari uppsagnir. Hvað er þá til ráða? Ég held að við megum ekki hunsa orkufrekan iðnað, alls ekki. Ég held að við eigum að horfa til hans. Það er sárt að við skulum ekki koma sterkari út úr því mikla hagvaxtarskeiði sem hér hefur verið en það eru auðvitað skýringar á því og við verðum bara að horfast í augu við staðreyndir. Það eru erfiðir tímar fram undan og það væru vissulega gríðarlega góð skilaboð fyrir umheiminn ef við sæjum t.d. fram á að menn væru komnir á fulla ferð með álverið fyrir austan svo ég tali ekki um það sem komið var inn á hér áður að norska fyrirtækið sem vildi koma hingað og framleiða sílikon og sólarrafhlöður þar sem við hefðum getað verið með endurnýjanlega orku til að framleiða endurnýjanlega orku. Það hefði ekki verið slæm hugmyndafræði fyrir Ísland að selja. Talað var um 300 störf. Mér sýnist Quebec vera að tala um þúsund störf sem fylgja því og þetta fyrirtæki valdi að fara til Kanada. Ég er líka svolítið svekktur einmitt í þessu samhengi að umhverfismatið skyldi vera sameiginlegt því að mér hefði fundist ef það má virkja ef það skaðar ekki umhverfið að þá eigi það ekki að vera háð því hvort byggt verður álver. Þá gætu menn einmitt verið að bjóða hátæknifyrirtækjum af öðrum toga til landsins eins og netþjónabúum, eins og svona pólýsílikonverksmiðjum og fleiru í þeim dúr. Ég held að við verðum að grípa tækifærin þegar þau gefast núna. Við eigum að vera einbeitt í því að nýta okkur þau í staðinn fyrir að nánast að afþakka þau góðu tækifæri sem okkur hafa þó verið að berast upp í hendurnar, virðulegi forseti.