135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[20:34]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá ítarlegu umræðu sem hefur farið fram hér í dag um stöðu efnahagsmála og um leið færa hæstv. forsætisráðherra þakkir fyrir að flytja skýrslu sína hér. Full ástæða er til að ræða þá stöðu sem við blasir í efnahags- og atvinnumálum um þessar mundir. Ég fagna því að þessi umræða hefur að mestu leyti verið málefnaleg þó vissulega hafi verið skiptar skoðanir um einstök atriði eins og gengur.

Ég vil líka þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þá nennu, ef svo má segja, að sitja hér í allan dag undir þessum umræðum og er nú meira en hægt er að segja um ýmsa aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar því ráðherrabekkurinn hefur lengst af umræðunnar verið býsna þunnskipaður og eins og ég segi þá hefur fyrst og fremst hæstv. forsætisráðherra eðli málsins samkvæmt setið undir henni en lítið farið til að mynda fyrir forustusveit hins stjórnmálaflokksins, Samfylkingarinnar. Það getur nú verið að miðað við þann málflutning — litla en málflutning þó — sem hefur komið fram hjá þeim flokki í þessari umræðu að þá hafi kannski verið allt eins gott fyrir forustusveitina að vera víðs fjarri.

Hæstv. utanríkisráðherra kvartaði undan því í upphafi þessarar umræðu að fyrst og fremst hávaði kæmi frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, háreisti og köll um patentlausnir. En eins og hér hefur síðan komið fram í umræðunni hafa ekki aðrir heyrt það þannig úr okkar röðum. Vissulega getur stundum heyrst í okkur þingmönnum Vinstri grænna og við þurfum oft að brýna raustina. En það er ekki þar með sagt að ekki sé málefnalegt innlegg þar á ferðinni.

Við höfum eins og hér hefur komið fram lengi talað um að hætta væri á því að við mundum lenda í niðursveiflu í efnahagslífinu líkt og við erum að upplifa núna vegna hinnar miklu þenslu. Sumir segja, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra, að það hafi verið viðbúið að það kæmi niðursveifla eða samdráttur eftir hina miklu þenslu og uppsveiflu. Þá má spyrja sig hvort ekki hafi verið fyrirséð til dæmis árið 2005 að það mundi gerast einhvern tímann þó menn vissu ekki nákvæmlega hvenær og þótt menn vissu ekki nákvæmlega hvernig eða af hvað miklum þunga af því þeir sáu auðvitað ekki fyrir alla hluti, eðlilega. Það er rétt að hér hafa líka verið nefndar í þessu samhengi ytri aðstæður sem hafa kannski magnað upp þann vanda sem við er að glíma og var ekki að öllu leyti fyrirséður. En þá hefði verið, eins og við höfum lagt til og bent á í umræðum undanfarinna ára, mikilvægt að búa í haginn, sérstaklega á uppsveiflutímum, á þenslutímum, uppgangstímum í efnahagslífinu, búa þannig í haginn að þjóðarbúið væri búið undir samdráttinn hvenær sem hann kæmi og hversu mikill sem hann yrði. Það er það sem við höfum gagnrýnt og sagt að það hafi ekki verið gert, til að mynda hafi gjaldeyrisvaraforðinn ekki verið efldur þegar hvað bestu aðstæður voru til þess. Þó er því að sjálfsögðu haldið til haga sem er jákvætt gert í þeim efnum og þær upplýsingar sem hæstv. forsætisráðherra kom með hér í umræðuna í dag eru jákvætt innlegg í það. En að okkar mati þarf að gera mun betur.

Við höfum í okkar tillögum bæði á þinginu á síðastliðnum vetri og eins í okkar umfjöllun á flokkslegum vettvangi bent á ýmsar leiðir sem við teljum mikilvægar. Við höfum lagt mikla áherslu á að auka gjaldeyrisvaraforðann og talið að hann þyrfti á næsta eina til eina og hálfa árinu að fara í jafnvel 60–70% af áætlaðri vergri landsframleiðslu. Um það geta verið skiptar skoðanir hversu hátt hlutfallið þarf að vera. En við erum þeirrar skoðunar að það þurfi í öllu falli að vera talsvert umfram það sem það er í dag. Ætli það séu ekki nálægt 20% af landsframleiðslu eða þar um bil í dag og þyrfti að aukast allverulega að okkar mati.

Við höfum bent á það hér að endurskoða þyrfti lögin um Seðlabankann. Hæstv. utanríkisráðherra gagnrýndi í umræðunni Vinstri hreyfinguna – grænt framboð sérstaklega fyrir þetta sjónarmið, sjónarmið sem þessi sami utanríkisráðherra, þá í stjórnarandstöðu, hafði væntanlega á síðasta kjörtímabili og var ekki ágreiningur um við okkur þá. En um leið og hún er komin í ríkisstjórn þá snýr hún alveg við blaðinu og segir þó í okkar samþykkt um þetta mál ekki annað en, með leyfi forseta:

„Skoða ber hvort gjaldeyrisstöðugleikamarkmið og markmið um fulla atvinnu og sjálfbæra þróun í okkar þjóðarbúskap eigi ekki að bætast við sem hliðar- eða undirmarkmið.“

Það er nú ekki fastar að orði kveðið um þetta en að við teljum að skoða eigi hvort aðrir þættir geti komið þarna inn heldur en einungis 2,5% verðbólgumarkmiðið sem hefur alls ekki verið raunhæft viðmið undanfarin ár þannig að ég hafna því algerlega að hér sé um óraunhæfar og ábyrgðarlausar hugmyndir að ræða eins og kom fram hjá formanni Samfylkingarinnar.

Hér hefur verið vikið að hugmyndum um að endurskoða verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins á sviði efnahags,- viðskipta- og ríkisfjármála. Ég ætla ekki að fara sérstaklega yfir það. Við höfum lagt áherslu á að efla og auka þjóðhagslegan sparnað. Segja má að þjóðhagslegur sparnaður á Íslandi hafi lengi verið lágur í samanburði við nágrannaþjóðir okkar og í raun allt of lágur um langt skeið. Það er að mínu mati ekki nýtilkomið vandamál. Það verður að vinna að því að auka þjóðhagslegan sparnað og þar tel ég til dæmis að eigi að horfa ekki síst til lífeyriskerfisins auk annarra þátta.

Þegar okkur er legið á hálsi fyrir að hafa ekki neinar lausnir í þeim vanda sem við er að glíma er auðvitað rétt að hafa í huga sem hér hefur margoft verið sagt að engar töfralausnir eða patentlausnir eru til. Við höfum samt sem áður lagt áherslu á tiltekna þætti. Við höfum sagt að það sé mikilvægt að fjárfesta í innviðum íslensks samfélags. Við teljum að í því felist heilmikil verðmætasköpun. Kvartað er yfir því að við viljum ekki endalausa uppbyggingu álvera; ergo við viljum ekki verðmætasköpun. Rétt eins og engin verðmætasköpun sé fólgin í því að fjárfesta í innviðum samgöngukerfisins eða fjarskiptakerfisins eða í menntun og menningu þjóðarinnar. Við teljum að það sé mikilvægt einmitt á samdráttarskeiði að ríkisvaldið komi þá inn og opinberir aðilar eins og sveitarfélögin líka og fjárfesti í þessum innviðum í samfélaginu.

Í þessu samhengi höfum við leyft okkur að minna á og benda á reynslu Finna sem lentu í miklum efnahagsþrengingum á tíunda áratug síðustu aldar með hruni Sovétríkjanna. Þegar þeir tóku ákvörðun um það að leggja verulega fjármuni í og tókust í raun á við sínar efnahagsþrengingar með því að fjárfesta í menntun, í rannsóknum, í þróun, í fjárfestingu, í nýsköpun. Þetta var auðvitað kostnaðarsamt á sínum tíma og ekki útlátalaust fyrir finnska efnahagskerfið nema síður sé. En þetta hefur skilað þeim gríðarlega miklum árangri. Ég tel að við ættum gjarnan að horfa til svo jákvæðrar reynslu nágrannaþjóða eins og þar er á ferðinni.

Síðan höfum við einfaldlega sagt að við teljum og við tökum undir það að vinna eigi að sem breiðastri samstöðu allra aðila, þar með talið stjórnarandstöðuflokkanna og hlýt ég að hvetja hæstv. forsætisráðherra til þess að hlusta á það líka þó það komi úr röðum stjórnarandstæðinga að þeir vilja líka leggja lóð á vogarskálarnar og við teljum okkur hafa ýmislegt fram að færa í þeim efnum. Við höfum hins vegar líka sagt að við teljum að þjóðarsátt eða hvað annað sem þetta á að kallast verði að byggjast á því að endurheimta stöðugleikann, auka jöfnuð í samfélaginu og efla velferðarkerfið, deila skattbyrðinni á réttlátan hátt. Ég heyrði hæstv. forsætisráðherra útiloka það í sjónvarpsviðtali hér áðan að taka til dæmis upp hátekjuskatt. Ég undra mig á því að ekki skuli neitt af þeim toga vera í hans huga svona liður í því að fá sem allra flesta að borðinu.

Ég hlýt líka að spyrja þegar við horfum fram á þessa miklu vaxtabyrði sem almenningur í landinu býr við til dæmis á sínum húsnæðislánum hvort það hafi hvarflað að ríkisstjórninni að koma til móts við sérstaklega tekjulága einstaklinga með því að auka og efla vaxtabótakerfið og húsnæðisbótakerfið til þess að koma til móts við þessa auknu vaxtabyrði og greiðsluerfiðleika sem heimilin í landinu búa við. Það tel ég að gæti verið jákvætt innlegg ríkisvaldsins inn í þessa umræðu og áreiðanlega til þess fallið (Forseti hringir.) að verkalýðshreyfingin og samtök launafólks taki því jákvætt.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Miklu fleira er hægt að ræða í þessari umræðu (Forseti hringir.) heldur en ég komst yfir á þeim tíma sem ég hef haft. En þetta (Forseti hringir.) eru svona þau meginsjónarmið sem við höfum haldið fram og ég vildi leyfa mér að koma á framfæri.