135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[20:50]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að í ástandinu eins og það er núna er mjög rangt að tala niður gjaldmiðilinn okkar. Að tala niður krónuna núna er mjög slæmt. Þessi gjaldmiðill hefur virkað vel undanfarin ár, vandamálið var hvað hún var sterk. Staða hennar í dag er að mínu mati vegna þess að stýrivextir voru of háir. Ef við hefðum ekki farið í þá vegferð að taka hérna við endalausum jöklabréfum og skuldsetja okkur held ég að staða krónunnar væri önnur í dag, þetta sé í raun ekki flóknara en það, og þá væri enginn að tala um krónuna með þessum hætti. Þetta sem gerðist í kringum jöklabréfaútgáfuna er nokkuð sem hægt er að leiðrétta að mínu mati og kemur í rauninni krónunni harla lítið við í sjálfu sér því að við sjáum líka mjög miklar sveiflur á milli dollara og evru, mjög, svo að talið er í tugum prósenta, menn mega ekki gleyma því. Margir eru farnir að kvarta undan styrkri stöðu evrunnar.

Mig langaði að fá fram hér hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni hvaða afstöðu hann hefur til vísitölubindingar lána og hvort hann hafi sterkar skoðanir í þeim efnum því að hann virðist hafa sterkar skoðanir á ýmsum hlutum.