135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[20:54]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þau sjónarmið hafa auðvitað komið fram að vísitölubindingin sé sú leið að tryggja sparifjáreigendum eðlilegan arð af fjármunum sínum. En auðvitað yrði það svo, eins og í öðrum löndum, að vextir yrðu ekki fastir hér. Ef við tækjum upp það vaxtaform að hætta með þessa vísitölubindingu eða í það minnsta þessar annuitets-greiðslur mundum við sjá að stýritæki Seðlabankans mundu virka miklu betur, þ.e. hækkun vaxta mundi bíta á næstu mánaðarlegu afborgun viðkomandi skuldara en ekki dreifast á næstu 20–25 ár eins og nú er. Þar með ætti fólk bara minna í veskinu við næstu mánaðamót vegna þess að stýrivextir voru hækkaðir. Þar með mundi það ekki eyða þeim peningum.

Svo kemur líka hitt sem margir hafa bent á, verður vísitalan til þess að bankar — fjármálastofnanir eru bæði með belti og axlabönd, tryggðar í bak og fyrir, þurfa að hafa miklu minni áhyggjur af að dæla þess vegna peningunum út, þurfa í rauninni ekkert að hafa áhyggjur af verðbólgu — yrði ekki samábyrgð efnahagsmála miklu meiri, samábyrgð stjórnvalda og bankanna einmitt miklu meiri ef þessi vísitölulán yrðu lögð niður?

Hitt er annað mál að það er ekki einfalt að vinna sig út úr þessu, ég geri mér fullkomlega grein fyrir því. Það er í rauninni mjög flókið mál en hefði kannski verið leið þegar við vorum komin á dálítið eðlilegan grundvöll í vaxtakjörum á Íslandi á sínum tíma. Þetta er hins vegar verkefni sem við getum farið í þegar við erum búin að laga núverandi ástand að mínu mati.