135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[20:56]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri ekki annað en að ég og hv. þingmaður séum að verulegu leyti sammála í þessu máli. Það eru að sjálfsögðu ekki aðstæður til þess núna að hjóla í þessi mál með verðbólgu eins og hún er og við það vaxtastig sem við búum við. Ég tek það fram að ég er ekki andvígur verðtryggingu sem slíkri og ég tel að hún geti vel verið hluti af fyrirkomulaginu innan hóflegra og skynsamlegra marka, m.a. með það í huga að sparnaðarform séu tryggð og varin fyrir verðbólgu.

Þetta virkar fyrst og fremst á hina hliðina hjá okkur og þjóðhagslegur sparnaður er þrátt fyrir verðtrygginguna hér mjög lágur. Fjármagnið er oftryggt, það er tryggt í bak og fyrir með belti og axlabönd eins og ég held að Ögmundur Jónasson hafi fyrstur kallað það. Af því að hv. þingmaður nefndi hér að nafnvextir yrðu auðvitað breytilegir ef lán væru óverðtryggð skulum við ekki gleyma því hvernig ástandið og fyrirkomulagið er í dag, við erum með verðtryggð lán sem eru tryggð fyrir verðbólgu en þau eru líka með breytilegum vöxtum, sem er auðvitað algjört siðleysi. (Gripið fram í: Fráleitt.) Auðvitað er það fráleitt og um það höfum við einmitt flutt frumvörp, ég og nefndur þingmaður, hv. þm. Ögmundur Jónasson, að þetta fyrirkomulag verði einfaldlega afnumið.

Kannski er maður brenndur af því enn þann dag í dag að hafa verið kominn í stjórnmál þegar misgengið illræmda rændi þúsundir fjölskyldna í landinu eigum sínum, þegar lánin óðu upp úr öllu valdi í verðbólgunni verðtryggð en vísitölutrygging launa var afnumin með skelfilegum afleiðingum þannig að margir hafa blett á samviskunni enn þá sem að því stóðu og lesa má um í ævisögum manna, þ.e. stjórnmálamanna sem hafa látið af störfum, sumir hverjir. (Gripið fram í: Er það ekki Jakob?)

Ég er því enn þeirrar skoðunar og sammála hv. þingmanni um að þetta sé eitt af þeim viðfangsefnum sem við þurfum að taka til yfirvegunar og skoðunar. Þegar við erum búin að koma húsinu í lag, gera hreint í núverandi ástandi förum við sjálfsagt líka yfir gjaldmiðlamálin og margt fleira sem ekki á erindi inn í verkefni dagsins í dag, í ástandið í núinu því að við verðum að takast á við það (Forseti hringir.) eins og það er út frá þeim aðstæðum sem okkur eru búnar og með þeim tækjum sem við höfum í höndunum.