135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[20:58]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það var ákveðið atriði sem ég vildi koma inn í umræðuna, ekki síst í tengslum við þau orð sem hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson lét falla um fjármálastofnanir og sparisjóðina.

Við höfum rætt hér í dag um mikilvægi þess að ríkisstjórn og Seðlabanki njóti trúverðugleika, byggi upp trúverðugleika og standi við hann. Þetta er alveg hárrétt og enginn deilir um það. Hluti af þessu dæmi er líka fjármálastofnanir landsmanna og það verður að segjast eins og er að því fer fjarri að þær standi undir þeim trúverðugleika sem æskilegt er. Það er reyndar svo að síðan ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks einkavæddi og seldi eða hálfgaf vinum sínum eða skipti bönkum þjóðarinnar á milli sín, Búnaðarbankinn kom í hlut framsóknarmanna og Landsbankinn í hlut Sjálfstæðisflokksins, má segja að þá væri sleppt lausri alveg hömlulausi spillingu og græðgi einstaklinga og hópa á fjármálamarkaði. (Gripið fram í: Jasso.)Já, jasso.

Það er einmitt þessari græðgi og þessari áhættusækni sem þar var hleypt af stokkunum sem við erum enn að bíta úr nálinni með og sér ekki fyrir endann á því. Sparisjóðirnir hafa einmitt fallið þar í gin þessarar græðgi. Sparisjóðirnir eru að stofni til samfélagslegar stofnanir. Þar var ekki gert ráð fyrir því að ábyrgðarmenn eða svokallaðir stofnfjárhafar væru í eigin ábataskyni, heldur var hlutverk sparisjóðanna að veita staðbundna fjármálaþjónustu. Það var ekki hlutverk sparisjóðanna að stunda áhættufjárfestingar í formi hlutabréfakaupa eða slíks, en því miður hafa þeir farið út á þá braut.

Ég verð að segja að tími sparisjóðanna er ekki liðinn ef tími heiðvirðs og góðs siðferðis er ekki liðinn því að þá eiga sparisjóðirnir og þessir eiginleikar samleið. Ef græðgin á hins vegar að fá að leika lausum hala getur vel verið að tími sparisjóðanna sé liðinn.

Ég verð að segja að í ljósi síðustu daga og umræðunnar þar sem verið er að taka upp mál gagnvart sparisjóðunum — það er mál núna í gangi, sá ég, gagnvart sparifjáreigendum í fyrrverandi Sparisjóði Hafnarfjarðar þar sem menn eru að kæra að stofnbréf sem seld voru á 40 eða 50 millj. kr. hefðu verið seld nokkrum vikum síðar á 90 millj. Ekki veit ég hvernig viðkomandi fengu þessi stofnbréf.

Svo les maður í Viðskiptablaðinu í dag um Sparisjóð Keflavíkur þar sem sprenging hefur orðið í lánveitingum sparisjóðsins til stjórnar hans og félaga sem tengjast stjórninni. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Um áramótin síðustu námu þessi útlán liðlega 194 milljónum en sex mánuðum síðar, þ.e. í lok júní, voru útlánin til stjórnarmanna og tengdra félaga og fyrirtækja komin í rúman 1,6 milljarða króna.“

Hvað er á seyði? Ég hef kynnst yfirtöku á Sparisjóði Skagafjarðar, Sparisjóði Siglufjarðar og nú síðast Sparisjóði Mýrasýslu. Það er einkennilegt að oft dúkka upp sömu nöfn sem þar eru á ferðinni í kringum þær yfirtökur. Sparisjóður Mýrasýslu heldur aðalfund í maí og allt í fínu lagi. Hálfum mánuði seinna er úrskurðað að hann verði að grípa strax til aðgerða. Eitthvað er þarna að.

Ég tel afar mikilvægt til að hreinsa andrúmsloftið, til að skapa hér þokkalegt siðferði, að gera líka úttekt á þessum málum. Það er eðlilegt að gerð verði á þessu rannsókn. Ríkislögreglustjóri er nú byrjaður á að kanna hvað hafi verið að gerast innan sparisjóðanna og ég tel eðlilegt að fylgja því eftir. Það væri ekkert óeðlilegt að ríkisstjórnin hefði um það forgöngu að gera úttekt á því hvað þarna hefur verið að gerast varðandi þessar samfélagsstofnanir sem sparisjóðirnir eru (Forseti hringir.) þannig að við getum búið við þá og að þeir sem vilja vera sparisjóðir (Forseti hringir.) fái möguleika til þess að vera það áfram.