135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[21:03]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka forsætisráðherra fyrir að hefja þessa umræðu og fyrir góða og gagnlega skýrslu um efnahagsmálin. Ég tel að sú umræða sem hér hefur farið fram í dag hafi að mörgu leyti verið góð og skýrt mörg mál. Að sjálfsögðu greinir fólk þó á um það og það er eðlilegt með hvaða hætti og hvernig best sé að taka á þeim vandamálum sem við er etja hverju sinni í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Það sem ég tel brýnast að gera í dag er að lækka stýrivexti Seðlabankans og skapa hér eðlilegt lánaumhverfi og tek þá undir með varaformanni Sjálfstæðisflokksins, hæstv. menntamálaráðherra, sem benti sérstaklega á það þegar hún gegndi starfi forsætisráðherra í fjarveru hæstv. forsætisráðherra að vextir mættu ekki vera svo háir að það lamaði hjól atvinnulífsins. Þetta er það mikilvægasta sem við er að etja í dag því að hjól atvinnulífsins mega ekki stöðvast.

Þá verður ekki hjá því komist að við hverfum frá þeirri gengisstefnu sem við höfum fylgt. Ég hefði talið heppilegast að við tengdumst stóru myntkerfi því það liggur alveg ljóst fyrir að kostnaðurinn við myntina sem við erum með í dag er orðinn of mikill. Þá tel ég líka nauðsynlegt til að sinna kröfum neytenda og lækka vöruverð að auka frelsi í innflutningi og auðvelda neytendum að fá vörur á góðu verði. Samfara því verður að sjálfsögðu að efla Samkeppnisstofnun og verðlagseftirlit ASÍ og taka upp sérstaka innflutningsvísitölu sem mælir verð innfluttra vara þannig að auðveldlega sé hægt að sjá hverju sinni hvort innlendir aðilar leggi óhóflega mikið á neytendur eða ekki.

Þá tel ég mjög brýnt að lækka skatta með því að hækka skattleysismörk, sérstaklega hvað varðar lægstu tekjur. Það kæmi á móti þeirri kjararýrnun sem heimilin í landinu hafa orðið fyrir og munu verða fyrir meðan verðbólgan geysar. Jafnframt tel ég í ljósi þeirrar reynslu sem verið hefur að við verðum að taka upp hálaunaskatt á tekjur umfram eina milljón á mánuði. Ég tel raunar ekkert annað koma til greina. (Gripið fram í.) Að hækka skatta á ofurlaun, að sjálfsögðu. (Gripið fram í.) Skapa þjóðfélagslegt réttlæti, það er spurningin um það.

Ég hef verið talsmaður þess um langa hríð, í meira en áratug, að við gerðum breytingar og afnæmum verðtryggingu á lánsfé. Ég bendi á það, m.a. vegna þeirrar umræðu sem fram fór áðan á milli hv. þingmanna, að meðan íslenska krónan var sterkasti gjaldmiðill í heimi, hækkaði og var hærri en nokkur annar gjaldmiðill, evra, dollari eða pund, þá hækkaði samt sem áður vísitala neysluverðs til verðtryggingar þannig að lánin hækkuðu eftir sem áður. Af hverju? Af því að þetta er óréttlát viðmiðun, hún stenst ekki. Ég fæ bréf frá fjölda fólks, sjálfsagt vegna þess að ég hef verið eindreginn andstæðingur verðtryggðra lána, þar sem fólk rekur með hvaða hætti og hvernig komið er fyrir því. Eitt bréf fékk ég í dag þar sem rakin er saga fólks sem keypti íbúð fyrir 30 millj. og tók yfir 20 millj. kr. lán. Það horfir nú á það að afborganir hafa hækkað um 200 þús. á mánuði og nú er svo komið að það er ekkert eftir af því sem fólkið lagði í íbúðina. Ég hefði talið brýnt eins og ástandið er núna að nýta þá kosti sem ríkisvaldið hefur, m.a. vegna þess að hér eru digrir sjóðir eins og hæstv. forsætisráðherra talaði um áðan, og svara þörfum þess unga fólks sem hefur verið að fjárfesta með þessum rangláta lánahætti og aðstoða það við að halda eignum sínum, aðstoða það við það að lifa mannsæmandi lífi. Það finnst mér vera forgangsatriði.

Það hefur verið fagur haustdagur í dag. Ég vona og ég treysti á það að hæstv. forsætisráðherra standi þannig að verkstjórn að við megum líta bjartari daga og fallega vordaga í efnahagsmálum þegar þessum vetri linnir.