135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[21:09]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú skil ég af hverju hv. þingmaður yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn. Hann er nefnilega alls ekki frjálshyggjusinnaður eða frjálslyndur. Hann vill lækka stýrivexti Seðlabankans, væntanlega með handafli, og hann gerir sér ekki grein fyrir því hvernig það mundi virka á alþjóðamarkaði þar sem Íslendingar sækja um lán. Í miðri ánni á að skipta um hest, afnema vald Seðlabankans og fara að handstýra stýrivöxtunum. Er það nú trúverðugt?

Svo segir hann eins og ekkert sé að við ættum að tengjast stærra myntkerfi. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvaða myntkerfi hann ætlar að tengjast. Er það norska krónan eða svissneski frankinn eða hin fræga evra sem er órólegri gagnvart dollaranum en íslenska krónan? Hvað vill hann taka upp? Svo talaði hann um innflutningsvísitölu og hefur enga trú á samkeppni, þ.e. að samkeppni haldi niðri álagningunni. Nei, nei, það á að gera með handvirkum hætti líka. Svo talar hann um hálaunaskatt á tekjur yfir milljón. Það vita náttúrlega flestir að það gæfi afskaplega litlar tekjur og virkaði hreinlega sem öfundarskattur ef eitthvað er. Vegna þess að það eru ekkert voðalega margir með yfir milljón á mánuði og þær tekjur yrðu sáralitlar en mundu hugsanlega friðþægja einhverjum sem horfa öfundaraugum á slíkar tekjur.

Svo vill hann afnema verðtryggingu. Fyrir hvern? Fyrir sparifjáreigandann eða fyrir skuldarann? Auðvitað fyrir skuldarann. Hv. þingmaður hefur aldrei hugsað um sparifjáreigandann eða eigendur fjármagnsins sem eru lífeyrissjóðirnir líka. Það eru alltaf tvær hliðar á hverri medalíu. Og það eru ekki bankarnir sem taka verðtrygginguna, bankar eru ekki sparifjáreigendur, þeir skulda yfirleitt, þeir skulda spariféð. Það eru sparifjáreigendur, gamalt fólk sem er búið að nurla og leggja hart að sér um ævina, sem eiga spariféð. Þannig er það. Það sem hv. þingmaður vill er að taka björgina frá þeim til að mæta skyndiverðbólgu eins og er núna þar sem sparifé rýrnar og enginn talar um það og enginn hefur samúð með því.