135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[21:11]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit satt að segja ekki í hvaða heimi hv. þm. Pétur Blöndal hefur dvalið að undanförnu. Í fyrsta lagi hvet ég hv. þm. Pétur Blöndal til að skoða hver afkoma lífeyrissjóðanna er. Það er ljóst að afkoman er slík að ef þeir hefðu haft eignir sínar á óverðtryggðum innlánsreikningum bankanna væri afkoman betri en raun ber vitni. Þeir eru ekki með þetta verðtryggt, heldur betur ekki.

Hv. þingmaður talar um að ég vilji lækka stýrivexti með handafli. Ég spyr: Með hvaða hætti er stýrivöxtum beitt á Íslandi? Þeir hafa verið hækkaðir með handafli. Þeir hafa verið hækkaðir vegna þess að það eru geðþóttaákvarðanir í Seðlabankanum sem hafa ráðið því. Það er engin samkeppni, það er engin vísindaleg niðurstaða þar að baki.

Þegar ég tala um að tengjast stærra myntkerfi þá get ég tekið undir með hæstv. dómsmálaráðherra sem hefur komið með mjög skýran og að mínu viti mjög góðan málflutning um það atriði sem ég tel að sé allrar athugunar verður og ríkisstjórnin ætti að hyggja að og skoða mjög gaumgæfilega hvort sú leið er fær.

Hvað varðar innflutningsvísitölu þá er það einmitt til að efla samkeppni, hv. þm. Pétur Blöndal. Það er nú svo að hörðustu frjálshyggjumenn eins og Pétur Blöndal vilja hafa samkeppni án nokkurs eftirlits. Ég er ekki þannig. Ég vil hafa samkeppni með eftirliti þannig að samkeppnin virki og það er e.t.v. þar sem okkur greinir á, mig og hv. þm. Pétur Blöndal. Þetta er eitt atriði til að mæla sem best hvort samkeppnin er að virka eða ekki til að verslunarkeðjurnar geti ekki lagt of mikið á okkur. Varðandi ofurlaunaskattinn, hálaunaskattinn, þá er það bara spurningin um að koma á eðlilegu kerfi í þjóðfélaginu, eðlilegum jöfnuði í þjóðfélaginu.