135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[21:15]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er með miklum ólíkindum að lífeyrissjóðirnir skuli ekki skila betri niðurstöðu en raun ber vitni miðað við það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal heldur fram. Hefðu lífeyrissjóðirnir fjárfest með þeim hætti sem þeir geta gert í verðtryggðum hlutum og pappírum væri afkoma þeirra til muna betri en hún raunverulega er.

Afkoma lífeyrissjóðanna verður því ekki notuð til að afsaka það að taka skynsamlega ákvörðun um að afnema verðtryggingu á lánsfé. Hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson kom með mjög greinargott yfirlit yfir það hvernig þetta væri reiknað sem gerir það að verkum að stöðugt er verið að hækka höfuðstólinn þannig að smám saman vex þetta yfir eignirnar. Eignamyndunin verður engin, hún verður neikvæð.

Og eins og ég benti á: Hvaða glóra getur verið í því að hafa þannig lánakjör á Íslandi að enginn gjaldmiðill í heimi standist lánavísitölu íslenskra banka, og þess vegna Íbúðalánasjóðs, snúning? Það getur ekki verið réttlátt kerfi. Það er sérhannað kerfi fyrir lánveitendur og til verulegs baga fyrir eðlilegt ástand í þjóðfélaginu, og ekki er hægt að sætta sig við það. Það er gjörsamlega útilokað að svo verði áfram, og seldar verði ofan af fólki, fjölda ungs fólks, íbúðir vegna þess að útilokað er að standa undir þeim okurvöxtum sem verðtryggingin hefur í för með sér. Ég get ekki samþykkt það. Ég mun berjast gegn því að slíkt gerist með oddi og egg eins og ég framast get af því þetta er óréttlæti.

Hvað varðar Seðlabankann og heimildir hans þá tel ég að Seðlabankinn hafi farið offari varðandi vaxtaákvarðanir þannig að Alþingi beri að skoða hvaða heimildir eigi að hafa.