135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[21:31]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þessi svör hæstv. forsætisráðherra valda mér vonbrigðum. Það er auðvitað rétt að Hagstofan tók við ýmiss konar skráningarvinnu og heldur utan um ákveðna hluti og án efa ágætlega sem að henni snúa. Að hinu leytinu fóru þessi verkefni inn í fjármálaráðuneytið. Við sjáum afrakstur þess í ákaflega rýrum þjóðhagsáætlunum og spám með takmörkuðum gögnum sem koma frá fjármálaráðuneytinu og eru nú einu sinni frá fjármálaráðuneytinu og sett fram á ábyrgð pólitísks ráðherra.

Að hinu leytinu er vísað í það að að einhverju leyti sé þessu sinnt hjá aðilum vinnumarkaðarins og svo eru það greiningardeildir banka. En þó að greiningardeildir banka eigi að vera sjálfstæðar með einhverjum kínamúrum innan þeirra stofnana, skyldu þær nú ekki vera dálítið svona uppteknar af því hvernig bönkum reiðir af og hafa tilhneigingu til að reyna að réttlæta það hvernig bankar hafa staðið að málum í sínum rekstri og sínum ákvörðunum, til dæmis innrásinni á íbúðalánamarkaðinn og svo framvegis? Eftir situr meðal annars Alþingi sjálft í miklu veikari stöðu en áður var gagnvart undirstöðugögnum af þessu tagi. Það þekki ég sjálfur vel af eigin raun því að við þingmenn og ekki síst stjórnarandstaðan notaði sér þjónustu Þjóðhagsstofnunar mikið á sínum tíma. Ég man eftir mörgum tillögum og nefndarálitum sem ég sendi upp í Þjóðhagsstofnun og fékk útreikninga á og ráðgjöf gagnvart á sínum tíma. En ég ber það nú ekki við að senda Árna Mathiesen þær og biðja hann að fara yfir þær fyrir mig ef ég sem stjórnarandstæðingur er að leggja til dæmis til breyttar tillögur eða útfærslur í skattamálum og svo framvegis.

Ég hvet því hæstv. forsætisráðherra að minnsta kosti til að skoða hug sinn vel um það hvort einhvers konar — þó að það sé ekki Þjóðhagsstofnun — hagdeild sem hér gæti orðið í skjóli Alþingis, væri fjárstjórnar- og fjárlagavaldi Alþingis og nefndum Alþingis til stuðnings og annaðist slíka tiltekna óháða greiningu og álitsgjöf á sviði efnahagsmála og hagstjórnar. Það þarf ekki að vera neitt stórt bákn sem við erum þar að tala um.