135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

bankamál.

[13:36]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég get tekið undir eitt og annað í máli hv. þingmanns um mikilvægi bankastarfseminnar í landinu og varðandi það að farið sé fram með fyllstu gætni og hlutleysi gagnvart viðskiptavinum o.s.frv. En þær reglur sem um þetta gilda, fjárfestingarbankastarfsemi annars vegar og viðskiptabankastarfsemi hins vegar, eru byggðar á samevrópskum reglum og ég hygg að við skerum okkur ekki neitt úr hvað þetta varðar miðað við nálæg lönd. Ég tel ekki að reynslan af þessu eins og þetta er núna á Íslandi sé neitt sérstaklega slæm, alls ekki. Hins vegar er það verðug spurning sem hv. þingmaður reisir hér hvort gera megi endurbætur á þessu og það er sjálfsagt að fara vel og vandlega yfir það. Það er hins vegar mjög mikilvægt við núverandi aðstæður að rasa hvergi um ráð fram þegar bankakerfið á í hlut og það er mjög mikilvægt að allir leggist á eitt um að styðja þannig við bakið á okkar bankakerfi að það geti komist í gegnum þá lausafjárkreppu sem nú er við að fást í heiminum og gerir þeim erfitt um vik að afla sér eðlilegs starfsfjár með lánum eins og við ræddum reyndar ítarlega, mörg hver, í umræðunni í gær. Ég hygg því að það væri óheppilegt að ætla að gera einhverjar róttækar breytingar á starfsumhverfi bankanna um þessar mundir. (ÖJ: Það liggur fyrir frumvarp.)