135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

samningar við ljósmæður.

[13:45]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Þingheimur allur er vel meðvitaður um það sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum hvað varðar að leiðrétta kynbundinn launamun og huga að störfum kvennastétta. Ég held að raunin sé sú að í þeim samningum sem þegar hafa verið gerðir hafi náðst ákveðnir áfangar í þá veru. Eins er ríkisstjórnin með ákveðið starf í gangi þessa mánuðina og gert ráð fyrir að skilað verði áfangaáliti hvað það varðar í haust. Ég held því að verið sé að vinna vel í þeim efnum.

Það misvirðir enginn störf ljósmæðra eða gerir lítið úr þeim en staðan er einfaldlega sú í dag undir þessum kringumstæðum að erfiðara er um vik. Það er þrengra um vik til að gera jafnvel það sem menn kalla leiðréttingar eins og staðan er núna. Vonandi náum við niðurstöðu áður en til verkfalls kemur.