135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

ljósmæðradeilan og leiðrétting launa kvennastétta.

[13:52]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að bera fram sambærilega fyrirspurn og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir gerði hér áðan varðandi deilu ríkisvaldsins og ljósmæðra enda finnast mér kröfur ljósmæðra vera sanngjarnar þar sem þær leggja fyrst og fremst áherslu á sambærileg kjör við karlastéttir með sambærilega menntun.

En ég hef líka skilning á svörum hæstv. fjármálaráðherra. Það er erfitt að fjalla um svo viðkvæmt deilumál á því stigi sem það er. Ég leyfi mér þess vegna í framhaldi af þessu að minna á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir:

„Gerð verður áætlun um að minnka óútskýrðan kynbundinn launamun hjá ríkinu og stefnt að því að hann minnki um helming ...“

Og áfram:

„Endurmeta ber sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meiri hluta.“

Mín fyrirspurn er þess vegna stutt og laggóð: Hvað líður gerð þessarar áætlunar? Hún hlýtur að vera áleitin og tímabær, sérstaklega undir þeim kringumstæðum sem nú blasa við í deilum ljósmæðra og ríkisvaldsins.