135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

[15:04]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum stóriðju- og virkjunarmál og stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Auðvitað hefur það verið leitt fram í þessari umræðu að í ríkisstjórninni ríkir mikið stefnuleysi í þessum málaflokki. Það gerði hv. síðasti ræðumaður með prýði í ræðu sinni.

Að láta að því liggja að við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, séum mótfallin atvinnuuppbyggingu og bættum lífskjörum þjóðarinnar talar sínu máli. Ég fullyrði að þar eru menn að tala gegn betri vitund. Þar eru menn að ætla okkur eitthvað sem er ósanngjarnt að ætla okkur. Varnarræða hæstv. iðnaðarráðherra hér áðan snerist upp í ómálefnalegar og ómaklegar árásir á hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og það veit hæstv. iðnaðarráðherra. Tilraunir hæstv. ráðherra til að grænþvo sig og sinn flokk voru að mínu mati afar aumkunarverðar. Þær lýsa sér sjálfar.

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur í það rúmlega eina ár sem hún hefur starfað komið að stórvirkjunarframkvæmdum, undirbúningi þeirra. Það er sem sagt rangt sem hæstv. iðnaðarráðherra sagði áðan að hvorki þessi ríkisstjórn né sú fyrrverandi hefðu komið að málefnum álvers í Helguvík. Þetta er rangt vegna þess að búið var að undirrita viljayfirlýsingu sem fyrri ríkisstjórn átti aðild að og hæstv. núverandi viðskiptaráðherra tók eigin hendi fyrstu skóflustungu að því álveri ásamt fjármálaráðherra. Það er því rangt sem hæstv. iðnaðarráðherra segir hvað þetta varðar (Gripið fram í: Hann vissi ekki af skóflustungunni ...) þannig að — já, hann vissi ekki af skóflustungunni. Það er kannski eitt og annað sem hæstv. iðnaðarráðherra ætti að fara að kynna sér um þennan málaflokk þannig að hann geti talað af einhverri ábyrgð.

Hæstv. iðnaðarráðherra talar um að við búum við opið, gagnsætt og lýðræðislegt kerfi hvað þetta varðar. Ég mótmæli því. Ríkisstjórnin hefur ekki verið þess umkomin að leiða í lög þær tvær stoðir Árósasamningsins sem enn á eftir að leiða í lög þannig að hér erum við að fara á svig við þá samninga sem við höfum undirritað á alþjóðlegum vettvangi. Það á að hleypa almenningi að ákvarðanatöku sem varðar umhverfismál. Það á að fara í lýðræðislegt ferli með þessa hluti. Það er ekki það sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir eða hæstv. iðnaðarráðherra. Þvert á móti. Nú heyrum við ekki minnst á Árósasamninginn sem þessir hæstv. ráðherrar, hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. umhverfisráðherra, töluðu samt fjálglega um meðan þeir voru almennir þingmenn. Ég auglýsi eftir því að menn standi við orð sín og innleiði opið gagnsætt og lýðræðislegt kerfi sem er ekki til staðar í dag.

Hæstv. ráðherra segist hafa hent út úr ráðuneyti sínu umsóknum um virkjunarleyfi, rannsóknarleyfi í jarðvarma. Ég ætla að minna hæstv. ráðherra á að ákvæði í lögum segja að búa þurfi til reglur um hvernig eigi að velja milli aðila sem sækja um rannsóknarleyfi. Við höfum ekki enn komið okkur saman um þessar reglur. Það er þess vegna sem hæstv. iðnaðarráðherra getur ekki veitt rannsóknarleyfi. Það er ekki vegna þess að hann sé svo mikill náttúruverndarsinni. Það er ekki af því að hann sé að bjarga háhitasvæðunum úr klóm þeirra sem vilja búa til raforkuvirkjanir fyrir stóriðju í jarðvarma. Og bara það eitt, hæstv. forseti, er ekki til marks um mikla umhverfisverndarstefnu eða mikla náttúruverndarsinna þegar menn eru að virkja jarðvarmann okkar til stóriðju. Þegar við erum búnir að metta hitaveitukerfi okkar eins og raun ber vitni er óráð að virkja háhitasvæðin til að framleiða rafmagn fyrir stóriðju. Í rafmagnsframleiðslu nýtum við í hæsta lagi 14% af þeirri orku sem upp kemur. Annað fer til spillis, 85%, nema okkur takist að dæla því niður í tankinn aftur, segja menn, og menn vita ekki enn hvort það tekst. Menn eru að gera tilraunir með það. Þess vegna segi ég, hæstv. forseti: Menn fljóta sofandi að feigðarósi og ríkisstjórnin styður að verið sé að virkja til stóriðju á svæðum sem við vitum ekki hvort geti borið slíkt. Viðkvæm háhitasvæði, ágeng nýting í boði Samfylkingarinnar.

Hæstv. forseti. Það er allt of oft sem það gerist, líka núna undir þessari ríkisstjórn og valdi þessa hæstv. iðnaðarráðherra, að stjórnmálamenn, ráðamenn, koma sér saman um framkvæmdir áður en búið er að uppfylla lagaskilyrði um mat á umhverfisáhrifum. Síðan tala menn niður eigin ákvarðanir eins og hæstv. umhverfisráðherra gerði um daginn þegar hún talaði niður eigin úrskurð um álver til Bakka og sagði að það mundi ekki tefja það mál nema óverulega. Sem sagt, ríkisstjórnin lítur á umhverfiskríteríurnar sem óþægilega hraðahindrun í vegi framkvæmda.