135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

[15:09]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Það segir allt sem segja þarf um stjórnarandstöðuna á Íslandi að hingað koma foringjar hennar, hv. þm. Guðni Ágústsson og Steingrímur J. Sigfússon, til þings eftir þriggja mánaða fjarveru til að standa í þessum ræðustól, ekki til að veita ríkisstjórninni aðhald heldur til að gera hróp hvor að öðrum.

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin og þessi þjóð þarf á stjórnarandstöðu að halda sem getur hamið innbyrðis sundurlyndi sitt og veitt sér það nauðsynlega aðhald sem þarf að vera í landinu. Hún þarf málefnalegt aðhald og það er því þyngra en tárum taki að sjá hvað formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kemur nestislítill til þings, bæði í dag og í gær. Er vandséð hvaða brýnu mál hann hefur borið hingað inn sem hefðu átt að kalla á að Alþingi væri kvatt sérstaklega saman í júlí til að heyra þær ræður. Það er gott að hv. þingmaður saknaði þess sem hér stendur. En heimsendaspár og blekkingar í boði formanns Vinstri grænna er það sem einkenna á þennan daginn. Draga á upp þá mynd að Samfylkingin hafi svikið og hér eigi að eyðileggja náttúru landsins frá fjalli til fjöru á fjórum árum. Þegar staðreyndin er sú, og ég fullyrði það, að það samkomulag sem náðist í umhverfismálum í þessum stjórnarsáttmála er samkomulag sem formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefði gert hvaða dag vikunnar sem vera skyldi við Sjálfstæðisflokkinn og hefði verið stoltur af. Þó að sannarlega væru ekki skilyrði fyrir því fyrir síðustu kosningar að stöðva þau stóriðjuverkefni sem hafin voru þá náðist það fram að ekki verði á þessu tímabili farið inn á óröskuð náttúrusvæði vegna verkefna í stóriðju. Það náðist líka fram að friða hvert mikilvæga náttúrusvæðið á Íslandi á fætur öðru. (Gripið fram í: Hvar?) Hæstv. iðnaðarráðherra taldi það upp áðan og það náðist einnig fram að gera þá rammaáætlun sem umhverfissinnar, bæði í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Samfylkingunni og fjölmörgum öðrum stjórnmálaflokkum, hafa árum saman kallað á, rammaáætlun um friðun náttúru Íslands og nýtingu og hún mun liggja fyrir á kjörtímabilinu og vera skynsamlegur grundvöllur ákvarðana um alla framtíð. Hv. þingmaður og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefðu verið stolt af því að ganga til ríkisstjórnarsamstarfs um þá áfanga. Það er þess vegna, virðulegur forseti, ekki mikill hljómur í þeim upphrópunum sem hér eru hafðar þegar litið er til þess hversu stórir áfangar í náttúruvernd hafa náðst.

Hinu leynir svo ekki sá sem hér stendur að í röðum okkar í Samfylkingunni voru margir efasemdarmenn um það verkefni í álbræðslu sem verið er að vinna að í Helguvík. En eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði sjálfur daginn eftir kosningar þá var það verkefni ekkert „ultimatum“ því það var hafið og of langt komið. Það hefði þurft að flytja sérstök lög til að stöðva það og það vita allir að fyrir því er ekki þingmeirihluti hvernig svo sem á málið er litið.

Það er vandséð hvaða árangri hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefði skilað í stjórnarsamstarfi umfram það sem Samfylkingin hefur náð. Um leið og ástæða er til að gjalda varhuga við þessum heimsendaspám sem lýsa sér best í orðunum sem hv. þingmaður valdi hinum nýja þjóðgarði í sínu eigin kjördæmi. Hann sagði úr ræðustól Alþingis að Vatnajökulsþjóðgarður væri ekki barn í brók. (Gripið fram í.) Ég hvet hv. þm. Steingrím J. Sigfússon til þess að draga aftur þau orð sín vegna þess að þau eru eins og aðrar yfirlýsingar hans við upphaf þessarar umræðu fullkomlega úr takti við veruleikann, algerlega tilefnislausar upphrópanir. Vatnajökulsþjóðgarður er auðvitað stórkostlegur áfangi í náttúruvernd á Íslandi, mikill og merkilegur, og þó vissulega megi bæta við hann — ég tek undir það með hv. þingmanni — eru upphrópanir um að hann sé ekki barn í brók jafnfjarri veruleikanum og hræðsluáróður hans um umhverfismál og stöðu náttúruverndar í landinu.