135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

[15:14]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hægt er að fagna þessari umræðu eins og hún hefur þróast hér í dag og eins og til hennar er efnt því að til hennar er efnt undir því venjulega fororði sem gilt hefur í stóriðju- og iðnaðarumræðu á Íslandi að flokka menn niður í stóriðjusinna og stóriðjuandstæðinga. Ég hafna þeirri flokkun algerlega. Ég tel að þetta sé uppsetning þeirra sem vilja einfalda hlutina niður í skotgrafarhernað sem mun síðan aldrei leiða af sér farsæla niðurstöðu.

Í ljósi þessa var margt ágætt í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra, margt sem ég get tekið undir, en hitt er miklu meira áhyggjuefni að hvorki stefna hans né nein önnur stefna virðist ráða í störfum ríkisstjórnarinnar þegar kemur að þessum málaflokki. Ríkisstjórnin er einfaldlega fálmkennd í þessu eins og eiginlega öllum öðrum athöfnum sínum — það eina sem ríkisstjórnin hefur illu heilli lagt til, einu afskipti hennar af málaflokknum, er að eyðileggja fyrir norðanmönnum uppbyggingu á Bakka við Húsavík með þeim hætti að það er óskiljanlegt. Það er ekki einu sinni hægt að fá það fram að þetta sé stefna ráðherra ríkisstjórnarinnar upp til hópa né heldur að á bak við þær tafir sem þarna eru settar fram liggi nokkur sannfæring fyrir því að niðurstaðan verði önnur eða hafi nein raunveruleg áhrif á gang málsins annan en þann að tefja málið. Það er því slæmt að þessi leið hafi verið farin varðandi Bakka. Hægt er að nefna fleira sem hefur farið miður í tíð núverandi ríkisstjórnar eins og uppbygging á sólarkísilverksmiðju í Þorlákshöfn sem er horfin okkur fyrir hreint klúður og handvömm og fyrir það að stjórnvöld hafa ekki stutt eðlilega við bakið á þessari framkvæmd.

Hv. þm. Helgi Hjörvar kom í ræðupúlt og var honum mjög umhugað um að draga fram þann ágreining sem væri milli stjórnarandstöðuflokkanna. Þess misskilnings gætir innan stjórnarliðsins að stjórnarandstaðan eigi að tala einum rómi. Það er rétt að koma því hér á framfæri, ég hef reyndar bent á það áður, að það er stjórnarliðið sem á að sýna samstöðu. Stjórnarandstöðunni er algerlega frjálst hvaða aðferðir hún hefur við stjórnarandstöðuna og við að veita ríkisstjórninni aðhald. Auðvitað væri það auðveldara fyrir ríkisstjórnina að hafa andstöðuna bara úr einni átt og geta alltaf séð það fyrir að stjórnarandstaðan yrði að semja sig að einni niðurstöðu, þá væri staða ríkisstjórnarinnar vissulega einfaldari. En það er afskaplega barnalegt og í algerri andstöðu við það kerfi sem við búum við og við það kerfi sem ríkir í hinni vestrænu þingræðishefð.

Um orðahnippingar þær sem urðu milli forustumanna stjórnarandstöðuflokkanna er ekkert annað að segja en að þær eru gamalkunnar. Það er gamalkunnugt að við framsóknarmenn höfum margir gagnrýnt afstöðu vinstri grænna til virkjunarmála í neðri hluta Þjórsár. Ég hef sjálfur alltaf verið mikill efasemdarmaður um að þessar virkjanir séu réttar. En ég bjó við það þegar ég kynnti mér þetta mál fyrst að á þeim tíma var við ramman reip að draga að ætla að vera á móti þessum virkjunum. Virkjunarsinnarnir höfðu nefnilega stóru umhverfisverndaröflin öll með sér undir forustu Steingríms J. Sigfússonar.