135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

[15:19]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þingmanni Steingrími J. Sigfússyni fyrir að hefja þessa umræðu í dag. Hún er mikilvæg vegna þess að frá Alþingi þurfa að koma skýr skilaboð um hvert stefni í þessum málaflokki. Það þarf atvinnulífið að vita. Það þurfa fjárfestar að vita, þeir sem stunda orkuöflun og ekki síst þeir sem leita til Íslands og hafa hug á því að byggja hér upp atvinnustarfsemi.

Ég hef átt þess kost að vinna nokkuð að þessum málaflokki einmitt varðandi það að fá fjárfesta hingað til lands en því miður verður að segjast eins og er að sú neikvæða umræða sem hefur þróast hjá okkur varðandi einmitt virkjanir, umhverfismálin og stóriðjuuppbyggingu hefur fælt frá. Það má minna á fyrri tíma hvað það varðar þegar iðnaðarráðherra var úr röðum Alþýðubandalagsins og fór fyrir þessum málaflokki og árangurinn á þeim tíma var ekki mikill í uppbyggingu stóriðju.

Það má líka fara aftur til þess tíma þegar alþýðubandalagsmenn töluðu sem hæst úr ræðustól á Alþingi og voru á móti álverinu í Hafnarfirði, á móti Búrfellsvirkjun. Hvar stæði okkar samfélag í dag ef málflutningur þeirra hefði náð fram og ekki hefði verið virkjað á Búrfelli á sínum tíma? Þá voru úrræðin þau að atvinnutækifæri væru í því að sjóða niður fisk í dósir og senda til Rússlands. Það voru mótvægisaðgerðirnar (Gripið fram í.) sem þá voru. Þannig var nú sú saga. (Gripið fram í.) Þá var tekin ákvörðun um að byggja Búrfellsvirkjun sem við eigum nú skuldlausa og við megum þakka fyrir það núna að hafa farið inn á þessa braut.

Auðlindanýtingin, að sjálfsögðu eigum við Íslendingar að halda áfram að nýta auðlindir okkar. Við erum að reyna að stjórna fiskveiðunum af þeirri skynsemi sem við frekast megum og getum og við eigum auðvitað að nýta þær auðlindir sem felast í fallvötnunum og gufunni og vatnsaflinu eins og kostur er til þess að hér megi byggja upp áfram sterkt og öflugt samfélag.

Við áttum þess kost í umhverfisnefnd Alþingis að fara í ferð til Skotlands. Þar kynntum við okkur meðal annars landskipulagsmálin. Þá kom fram einmitt að þar nota þeir umhverfisumræðuna, umhverfismálin til að vinna með og fyrir atvinnulífið þannig að atvinnulífið geti byggst upp og þar megi verða meiri hagvöxtur en áður hefur verið. Þannig eigum við að nota umræðuna um umhverfismálin. Við eigum að nota hana á jákvæðan hátt með atvinnulífinu og fyrir atvinnulífið og fyrir aukinn hagvöxt í okkar landi. Þannig eigum við að snúa þessari umræðu. En einhverra hluta vegna hafa tilteknir stjórnmálaflokkar eins og vinstri grænir getað nýtt sér umræðu um neikvæða umhverfisvernd og nýtt sér það í pólitískum tilgangi til að fá byr undir vængina og ná fylgi fólks og efnt þannig til áróðurs og andstöðu við heilbrigða atvinnustefnu og uppbyggingu og nýtingu þeirrar orku sem við höfum. Það er miður.

Ég vil í örfáum orðum koma að því, hæstv. forseti, að í þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað hafa menn talað um einstök verkefni, einstaka virkjanir. Því vil ég benda sérstaklega á að við eigum að horfa til þess, eins og gert var fyrir austan þegar Kárahnjúkavirkjun var byggð, stíflan og virkjunin í kjölfarið, að nýta orkuna sem næst upprunanum. Það er umhverfismál. Það er stórt og mikið umhverfismál að stytta línur og nota orkuna sem næst heimabyggðinni þar sem hún er framleidd. Þannig minnkum við umhverfisáhrifin frá raflínunum.

Að lokum þetta, forseti: Við eigum að sjálfsögðu að halda áfram að nýta orkuauðlindir í landinu til uppbyggingar samfélags okkar.