135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

[15:30]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Hér var hæstv. iðnaðarráðherra gefið tækifæri til þess að skýra stefnu ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum. Hann þakkaði ekki fyrir það og reyndi það ekki einu sinni. Það er nú kannski ekki nema von því að manninum er nokkur vorkunn, ekki síst þegar litið er til þeirrar óeiningar sem öllum er ljós að er um framhald þessara mála í stóriðjumálum á landinu innan hans eigin flokks, Samfylkingarinnar.

Það sem hæstv. iðnaðarráðherra sagði hér áðan var þó tvennt: Hann sagði að ríkisstjórnin styðji öll álver á Bakka og kallaði hér fram í að full eining væri á milli sín og hæstv. umhverfisráðherra.

Ég er hér með viðtal við hæstv. ráðherra Þórunni Sveinbjarnardóttur þar sem hún segist hvorki styðja uppbyggingu álvers á Bakka, í Helguvík né annars staðar. Hún lýsir þar eindreginni andstöðu, segist ósammála þeirri skoðun hæstv. iðnaðarráðherrans að Íslendingar muni ná þeim skilningi alþjóðasamfélagsins að álver á Íslandi séu umhverfisvænni en álver sem knúin eru með kolum í viðræðum um loftslagssamninginn. Það var hitt atriðið sem kom fram í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra. Hann svaraði engu um það hvaða nesti hæstv. umhverfisráðherra fer með til Kaupmannahafnar á loftslagsfundinn að ári. Hann var spurður beint um það og svaraði því engu.

Nei, í hverri viku eru landsmenn minntir á þau miklu svik, stærstu kosningasvik við stefnuskrá sem menn þekkja til hér á landi. Fagra Ísland sem nú gengur undir nafninu magra Ísland eða þaðan af ljótari nöfnum.

Það hefur kristallast í umræðunum í dag og reyndar í umræðunum um efnahagsmálin í gær að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er eini flokkurinn sem við þær aðstæður sem við búum við í dag og alla daga lítur til annarra átta en til ofvaxinna fjárfestinga í stóriðju. Við stingum ekki höfðinu í sandinn og við lokum ekki augunum fyrir ruðningsáhrifum stóriðjuframkvæmdanna fyrir austan. Við leyfum okkur ekki að útiloka áhrif stóriðjuframkvæmdanna á þá stöðu í efnahagsmálum sem hér hefur verið mikið til umræðu. Við setjum heldur ekki kíkinn fyrir blinda augað þegar við horfum á náttúruspjöllin og segjum að arðurinn af þessum framkvæmdum sé svo mikill að þetta hafi allt saman borgað sig. Þetta er það sem við heyrum æ ofan í æ frá stóriðjuflokkunum gömlu sem ekkert hafa lært af Kárahnjúkamálinu og síðan heyrum við þennan söng úr Samfylkingunni líka sem vill ekkert læra af Kárahnjúkavirkjuninni. Það er hrópað hér á framkvæmdir og meiri virkjanir, að bræða meira ál og fá svo eina litla olíuhreinsistöð í eftirrétt ef mögulegt er. Við vitum öll hvað er í pípunum. Það eru álver fyrir norðan og álver fyrir sunnan. Það eru stækkanir í Straumsvík og jafnvel stækkun á Reyðarfirði. Það eru væntingar í Þorlákshöfn líka. Allt snýst þetta um ál.

En orkan virðist hins vegar hvorki vera jafnaðgengileg né -auðsótt og ætlað var. Það er dapurlegt að það skuli eiga á altari þessara fyrirhuguðu framkvæmda ríkisstjórnarinnar að tutla hvert einasta háhitasvæði á Norðausturlandi og á Reykjanesi til þess eins að bræða ál. Það á að haga sér á nákvæmlega sama hátt og gert var í Kárahnjúkavirkjun þegar ekki aðeins stórárnar og hliðarár þeirra voru teknar heldur var hver einasta smáspræna tutluð á gjörvöllum hraunum og múla. Það er það sama sem á að fara að gera núna á jarðhitasvæðum bæði við Norðausturland og hér í nágrenni Reykjavíkur. Er það þetta sem þjóðin vill? Nei. Þjóðin telur að nú sé nóg komið. Þjóðin vill ekki fleiri álver.

Ég held að það væri holl lesning þingmönnum að lesa grein Andra Snæs Magnasonar í Morgunblaðinu síðastliðinn mánudag sem heitir einfaldlega „Hvenær er nóg komið?“

Þeir umhverfisnefndarmenn sem kusu Samfylkinguna vegna Fagra Íslands eiga um þetta að velja. Þeir eiga að reyna að koma vitinu fyrir forustulið sitt eða að ganga til liðs við vinstri græna. (Iðnrh.: Af hverju gera þeir það ekki?)

Það verður aldrei sagt að við höfum ekki reynt að koma vitinu fyrir þessa ríkisstjórn. En ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að það er komið að samfylkingarfólki (Forseti hringir.) að taka til í sínum ranni og brýna sitt forustufólk eða hreinlega ganga til liðs við okkur vinstri græn og reyna að (Forseti hringir.) verja þetta land fyrir stóriðjustefnunni.