135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

[15:57]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni að menn flúðu hér land unnvörpum á viðreisnarárunum enda voru þá við völd í landinu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur, í grófum dráttum sömu öfl og stjórna landinu í dag.

Það er lán fyrir hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson og okkur hin auðvitað að hann er tiltölulega einn um þá iðju sem hann stundar sem ákafast og er uppteknastur af. Hér eyddi hæstv. ráðherra tíma sínum, eiginlega öllum tíma sínum í útúrsnúninga og í að gera andstæðingum sínum upp skoðanir. Það var sláandi að þegar næsti ræðumaður, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, kom í ræðustól þá eyddi hann allri orku sinni og mestum tíma sínum í að veitast að Vinstri hreyfingunni – grænu framboði fyrir að við værum á móti öllum virkjunum og allri stóriðju. Hæstv. iðnaðarráðherra reyndi að sanna hið gagnstæða, að við eða a.m.k. ég sem hér stend væri með eiginlega öllum stóriðjuáformum sem mönnum hafa nokkurn tíma dottið í hug. (Gripið fram í.)

Ég hygg að Össur Skarphéðinsson sé í nokkurri sérstöðu meðal íslenskra stjórnmálamanna einfaldlega vegna þess að hann reynir vísvitandi að gera mönnum upp skoðanir. Hæstv. ráðherra veit auðvitað vel að ég hef ekki þau sjónarmið í umhverfismálum sem hann ber upp á mig en hann gerir það samt æ ofan í æ. Með öðrum orðum, Össur Skarphéðinsson er stjórnmálamaður þeirrar gerðar að væri hann í knattspyrnu færi hann yfirleitt í manninn en sjaldan í boltann.

Ég lýsi því yfir að Össur Skarphéðinsson má tala um mig hér úr þessum ræðustóli og hann má blogga um mig á nóttu sem degi eins og honum sýnist, hefur til þess fullt leyfi frá mér. Hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson má reyna að ljúga upp á mig eins og innræti hans framast býður honum (Gripið fram í.) af því að það tekur hvort sem er enginn mark á honum. Það tekur enginn mark á honum og menn fara inn á heimasíðu hans, ekki til að lesa pistlana heldur til að athuga hvenær nætur þeir voru skrifaðir.

Það sem eftir þessa umræðu stendur er það eins og ég dreg það saman að í undirbúningi á Íslandi og á fullri ferð eru áform um tvö og einn þriðja — tvö og hálft álver. Það er olíuhreinsunarstöð í kaupbæti. Ráðherrar grípa stundum til þess ráðs að segja að þeir séu ekki hrifnir af viðkomandi verkefni en það er undirbúið á fullu samt og jafnvel með þátttöku stjórnvalda. Utanríkisráðherra er ekki hrifin af álveri í Helguvík, iðnaðarráðherra er ekki hrifinn af olíuhreinsunarstöð, umhverfisráðherra er ekki hrifin af álverum yfirleitt, en þau eru samt öll á fullri ferð.

Með öðrum orðum, niðurstaðan er sú að Samfylkingin hefur selt Fagra Ísland eins og það leggur sig í samningunum við Sjálfstæðisflokkinn. Það er hér í gildi áfram algerlega óbreytt stóriðjustefna frá tíð fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það er meginniðurstaða þessarar umræðu. Þrátt fyrir ýmsar yfirlýsingar í ýmsar áttir og þrátt fyrir eitthvert orðagjálfur í stjórnarsáttmála birtist okkur veruleikinn í að þessi áform eru öll á fullri ferð og þar með eru undir, þar með er hótað öllum þeim helstu náttúruperlum sem átökin hafa staðið um. Því miður er sem sagt ekki í boði og ekki í sjónmáli nein sátt um þessi erfiðu deilumál sem hafa rifið þjóðina sundur og skipt henni í tvær fylkingar undanfarin ár, það er bara veruleikinn. Átökin geisa á Suðurlandi, átökin geisa hér í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og það eru mikil átök og verða enn meiri fyrir norðan þegar sá veruleiki birtist mönnum að í 346 þús. tonna álver þarf orku úr einhverju af fallvötnun norðan heiða, plús öll háhitasvæðin nálægt byggð.

Að síðustu, herra forseti, er eitt alveg skýrt eftir þessa umræðu, mjög, mjög skýrt, og það hefur ekki farið fram hjá neinum sem hefur hlýtt á árásirnar frá fjórum þingflokkum á Vinstri hreyfinguna — grænt framboð, að það er bara einn umhverfisverndarflokkur á Alþingi Íslendinga.