135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

[16:01]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Öðruvísi mér áður brá, að víkingarnir skuli koma hingað í pontu og fella tár. Ég er ekki vanur því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kveinki sér yfir því að tekið sé á honum. Þegar það hefur loksins gerst að hv. þingmaður hefur fundið klærnar sínar sem svolítið hafa verið til umræðu er ekki að búast við öðru en að hann sé klóraður til baka.

Hv. þingmaður, þetta er ekki sunnudagaskóli. Þetta er Alþingi Íslendinga þar sem menn takast á með rökum. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður þarf ekki að búast við því að geta hellt hér úr öllum hlandfötum sínum yfir iðnaðarráðherra og halda að hann svari ekki á móti. Það vill svo til að ég hef verið í flokki með hv. þingmanni. (RR: Öfgaflokki.) Ég ber mikla virðingu fyrir Steingrími J. Sigfússyni og mér finnst hann snjall stjórnmálamaður en ég hef verið í flokki með honum og þótt ég sé tekinn að reskjast hef ég ágætisminni og ég man skoðanir hv. þingmanns, ég man þetta allt saman. Ég man þetta ekki bara, ég á tilvitnanir í þetta allt saman. Það skiptir ekki máli, hv. þingmaður kom hingað til umræðunnar beinlínis til að láta eins og hann lét. Það var ekki til arða af málefnalegum málflutningi.

Hv. þingmaður kveinkar sér undan því að menn séu að ljúga upp á hann. Ég hef ekki farið rangt með eitt eða neitt. Ég hef tilvitnanir fyrir þessu öllu. Hv. þingmaður kom hingað — og hvað talaði hann um margar ár sem ég hefði í einhverjum heimullegum tilgangi áformað að virkja? Hann talaði t.d. um Jökulsá á Fjöllum. Ég sat í nefnd með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þar sem hann vann ákaflega gott starf ásamt mér og fyrrverandi umhverfisráðherra við það að undirbúa Vatnajökulsþjóðgarð og hann veit alveg mína afstöðu til Jökulsár á Fjöllum o.s.frv.

Það sem hér hefur komið fram við þessa umræðu er það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan og er væntanlega tilgangur hans með umræðunni. Hann hefur sýnt það vel að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ákveðna sérstöðu í þessum sölum. Hún vill ekki virkja þó að hann tali með öðrum hætti. Það er mín niðurstaða að bara kategórískt vilji hann ekki virkja þótt hann tali allt öðruvísi af því að hann er svona aðeins að, ekki klóra en kitla suma kjósendur. Þetta er bara staðan og eftir þennan dag liggur það fyrir. Það var tilgangurinn auðvitað með öllu þessu írafári og allt í lagi með það. Við þurfum líka málsvara á Alþingi fyrir þau viðhorf. Þannig er lýðræðið.

Hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa komið hérna og fyrir utan þessa merkilegu ræðu hjá hv. þingmanni töluðu hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og Kolbrún Halldórsdóttir, m.a. um jarðhitasvæðið. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði að það væri verið að fara í jarðhitann. Tutla úr honum, sagði hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, hverja einustu örðu. Starfssystir hennar varaði við því vegna þess að orkan væri ekki nægilega vel nýtt og ekki með sjálfbærum hætti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að orkan við raforkuframleiðslu í jarðhitavirkjunum er ekki nægilega vel nýtt í dag. Það er verkefni okkar að finna leiðir til að nýta þessi 2.000 megavött sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson greindi okkur frá hérna áðan og er ekki nýtt í dag. Það eru vandamál sem iðnaðarráðuneytið ásamt greininni er líka að spreyta sig á. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir veit væntanlega að ég hef tekið undir með henni varðandi sjálfbærni og endurnýjanleika jarðhitasvæða. Ég ber ákveðinn kvíðboga gagnvart því og þess vegna sendi ég, eins og hv. þingmaður hlýtur að vita, formlega beiðni til starfsfólks rammaáætlunar. Í fyrsta lagi yrðu gerðar skilgreiningar á því í hverju sjálfbær nýting jarðhitasvæða fælist og í öðru lagi hvernig umgengnisreglur ættu að vera á svæðunum sem hv. þingmaður hefur lögmætar áhyggjur af. Það mun ég síðan gera að reglu samkvæmt lagaheimild sem ég hef.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson kom hér og eftir að hafa skammað félaga sína í stjórnarandstöðunni kvartaði hann undan því að hinu og þessu hefði ekki verið svarað. En það voru allt saman spurningar sem hann gat ekki búist við að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon svaraði. Hann gerði að umræðuefni ákvörðun umhverfisisráðherra um heildarmat á Bakka. Það gerðu fleiri þingmenn. Ég spyr: Út af hverju er allt þetta írafár? Ég hef lesið þau lög. Ég var í salnum þegar þau voru sett og það var aldrei rætt svo að ég muni um þetta tiltekna ákvæði. Í greinargerðinni er varla neitt um það að finna. Ég sé engin lög mæla gegn því að tilraunaboranirnar sem menn tala um að hljóti að frestast hafi sinn eðlilega gang þrátt fyrir heildarmatið. Ég hef engin rök séð fyrir því. Hv. þm. Birki J. Jónssyni vil ég segja út af ræðu hans í gær að við búum á Íslandi. Þar vinna menn á vetrum. (Forseti hringir.) Þar geta menn borað á vetrum. Í fyrra voru menn að bora fyrir norðan í fjögurra metra snjólögum.