135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

málefni ljósmæðra.

[10:41]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hér var beint fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra í gær varðandi þá alvarlegu stöðu sem blasti við, að ljósmæður mundu hefja verkfall um miðnætti. Hann gaf þá yfirlýsingu hér eða það mátti skilja af orðum hans að það mætti búast við samningafundi í gærkvöldi en því miður var hann ekki boðaður. Því hefur komið til þessa verkfalls. Þetta er fyrsta aðgerð af nokkrum sem ljósmæður munu grípa til verði ekki samið núna fram að næstu mánaðamótum. Þá munu uppsagnir ljósmæðra dynja á, og það finnst mér vera sú sýn sem við verðum að horfa á, hversu alvarleg þessi staða er og hversu margar ljósmæður hafa lýst þeim vilja sínum að standa við uppsagnir. Þær eru búnar að gefast upp. Launakjörin, starfsaðstæðurnar á vinnustaðnum, álagið, ábyrgðin, sem ekki er svo fylgt eftir með viðurkenningu í launum. Þær eru búnar að gefast upp.

Þegar þetta bætist við og sú staðreynd að um 44% ljósmæðra eru komnar á þann aldur að þær fara að hætta störfum sökum aldurs blasir við staða sem ég tel að hv. formaður heilbrigðisnefndar og ríkisstjórnin öll verði að horfa til, kjör fólks sem vinnur við umönnun, ljósmæðra, hjúkrunarfræðinga, sem ekki sækja núna í hjúkrunarnám. Hvers vegna? Vegna þess að þær sjá ekki fram á að laun þeirra verði leiðrétt þrátt fyrir fagrar yfirlýsingar og stjórnarsáttmála um að það eigi að bæta laun kvenna og rétta kynbundinn launamun. Tækifærið var í vor, tækifærið er núna, það þýðir ekkert að bíða eftir jafnréttisþingi og að ljósmæður bíði eftir margra ára áætlun (Forseti hringir.) sem við getum ekki treyst að verði neitt annað en yfirlýsingar og loforð.