135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

málefni ljósmæðra.

[10:43]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég held að það sé öllum ljóst að hér á Íslandi hefur ríkt alvarlegur launamunur eftir því hvaða stéttir eiga í hlut og hvort um er að ræða karla eða konur. Þetta er hið alvarlegasta ástand og ég skil þessa umræðu sem hér hefur farið fram bæði í gær og í dag svo að það ríki almennur stuðningur við og skilningur á að þetta ástand lagist. Það tekur tíma og mun vonandi og vissulega úr rætast áður en langt um líður eins og hér hefur komið fram.

Nú erum við að tala um þessa stöðu sem er í kjaradeilu milli ríkis og ljósmæðra. Mér finnst raunar algjörlega útilokað að skilja hvernig ein stétt, kvennastétt sem þarf að ganga í gegnum sex ára nám, getur borið skarðari hlut eftir að hafa bætt við sig tveimur árum eftir hjúkrunarfræðinámið þegar upp er staðið og setið uppi með lakari laun en þeir sem stunda fjögurra ára nám. Almennt talað er um að ræða að þessi stétt ljósmæðra hefur ekki sambærileg kjör miðað við aðrar stéttir sem hafa sambærilega menntun. Úr þessu verður að leysa.

Ég skora á stjórnvöld og bind miklar vonir við að á þessu máli verði tekið á allra næstu vikum og mánuðum. Þessa deilu sem hér er um að ræða verður að leysa, hún leysist ekki í sölum Alþingis en ég tek undir áskoranir til stjórnvalda og til hæstvirtra ráðherra um að ganga nú fram sköruglega og skera á þennan hnút sem er okkur öllum til vansa.