135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

málefni ljósmæðra -- frumvarp um matvæli.

[10:45]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er með algjörum ólíkindum að til þessa verkfalls hafi þurft að koma. Ástandið veldur vissulega kvíða. Þetta snýst ekki bara um ljósmæður. Þetta snýst um fæðandi konur og þetta snýst um þá staðreynd að fæðingar ganga verr þegar fólk er kvíðið. Það er það sem er svo alvarlegt og það getur haft alvarlegar afleiðingar að láta ástand sem þetta koma upp.

Og ég spyr: Hvers konar stjórnsýsla er það? Hvers konar stjórnsýsla er það sem lokar meðgöngudeild á Landspítalanum, meðgöngudeild þar sem konur þurfa að leggjast inn og vera undir stöðugu eftirliti til þess að reyna að tryggja að meðgangan fái eðlilegan framgang og að barnið fái að koma heilbrigt í heiminn? Af hverju er þessari deild lokað? Hvers konar stjórnsýsla er það? Það er vegna þess að undanþágulistar hafa ekki verið uppfærðir í fjármálaráðuneytinu í 13 ár. Frá 1995 hafa sjálfkrafa ár eftir ár verið uppfærðir undanþágulistar. Hvers konar stjórnsýsla er þetta?

Á fundi heilbrigðisnefndar í gær var upplýst að heilbrigðisráðuneytið hefði boðist til að aðstoða fjármálaráðuneytið við þetta en það hefði ekki verið þegið.

Heilbrigðisráðherra sem hér er kominn í dyrnar var dapur í gær í sjónvarpsfréttum yfir því að geta ekkert gert í þessu máli, en treysti á samningsaðila. Ég man ekki eftir því að menn hafi verið mjög daprir, hvorki fjármálaráðherra né heilbrigðisráðherra, þegar nýr forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss fékk 25% launahækkun á dögunum, úr 1,3 millj. kr. á mánuði í 1,6 millj. kr.

Það eru til peningar í þessu kerfi og ljósmæður óska eftir því að fá sjálfsagða viðurkenningu á menntun sinni, reynslu og ábyrgð. Það er ekki nóg að tala um pólitískan vilja, hv. þingmaður (Forseti hringir.) Samfylkingarinnar, Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Spurningin er að koma þeim vilja í framkvæmd og standa við stóru orðin.