135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

málefni ljósmæðra -- frumvarp um matvæli.

[10:47]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér lýsa hv. þingmenn yfir stuðningi, skilningi, viðurkenningu. Fólk er á einu máli um að leiðrétta þurfi kjör ljósmæðra, að þær hafi setið eftir. Fólk virðist vera nokkuð sammála um að ástæðurnar séu þær að þetta er kvennastétt, kvennastétt sem hefur setið eftir af því að þetta er kvennastétt. Hér liggur fyrir stjórnarsáttmáli um að leiðrétta þurfi kynbundinn launamun.

Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir segir: Ég hef reynslu af þessum verkum. Hv. formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sagði fyrir síðustu kosningar: Vilji er allt sem þarf.

Ég hlýt að spyrja eins og ljósmæður hljóta að spyrja: Á þá ekki að ganga til verka? Getum við verið þekkt fyrir að þetta verkfall standi lengur, að þjónustan sé skert, að verðandi mæður þurfi að mæta aftur fyrir utan Karphúsið til að sýna stuðning sinn í verki? Getum við verið þekkt fyrir það að ekki sé gengið í það mál að leiðrétta kjör sem við getum öll verið sammála um að þurfi að leiðrétta?

Stuðningur og skilningur ná bara visst langt. Nú þarf að reisa merki í verki.