135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

málefni ljósmæðra -- frumvarp um matvæli.

[10:49]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að kjarasamningar verða ekki leysir hér inni á borði Alþingis en hins vegar er líka ljóst að umræður sem fara hér fram skipta verulegu máli. Það hefur komið fram í umræðunni að skilningur er alveg þvert á flokka á aðstæðum ljósmæðra og á kröfum þeirra um bætt kjör.

Ákveðin skref voru tekin í samningum hjúkrunarfræðinga síðasta vor sem þeir virtust á því stigi vera sáttir við. Ég reikna með og geng út frá því að ákveðin skref verði tekin í samningum við ljósmæður sem eru fram undan og sem aðilar geta sætt sig við. En ég tek jafnframt undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að Róm verður ekki byggð á einum degi. Það er bara þannig að það þarf að taka þetta í skrefum og ég geri ráð fyrir að það verði hér eftir sem hingað til.

En samningstímabilið er ekki nema átta mánuðir og samningar verða lausir aftur á næsta ári. Og það er alveg ljóst að þar skapast ákveðið svigrúm að byggja á þeirri vinnu sem fer fram núna í haust á vegum fjármálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins þar sem unnið er í þremur nefndum að tillögum í þessa veru.

Við konur, hvar í flokki sem við stöndum, viðurkennum þennan vanda. Við bindum vonir við að þarna verði tekin raunhæf skref til að ráðast gegn þeim kynbundna launamun sem við höfum þurft að búa við árum saman. Áratugum saman. Öldum saman. Þetta er ekki viðunandi. Það er ekki viðunandi að kvennastörf séu metin með þeim hætti sem gert er í dag. Það er það ekki. Og ef eitthvað er eru kvennastörf verr metin, þegar kynbundinn launamunur er skoðaður og horft á stéttir er horft á karla og konur innan sömu stéttar og þar er tiltekinn kynbundinn launamunur. Þegar bornar eru saman kvennastéttir og karlastéttir er þar mun meiri munur og það er ekki hægt að una við það.

Það sem stendur upp úr er að fólk kemur af ábyrgð að þessu máli. Barnshafandi konum, fæðandi konum er ekki hætta búin og við horfum fram á tveggja daga verkfall sem vonandi verður ekki (Forseti hringir.) meira en svo.