135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

málefni ljósmæðra -- frumvarp um matvæli.

[11:02]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Fullkomin ástæða er til að hafa áhyggjur af stöðu sauðfjárbænda. Ég vísa til þess sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði á fundi í Búðardal að hagsmunir þeirra verða skoðaðir í ráðuneytinu og hvernig hægt verður að bregðast við þessari erfiðu stöðu.

Varðandi matvælalöggjöfina þá höfum við nokkra reynslu fyrir því hér að yfirleitt batnar löggjöfin eftir því sem hún er lengur í meðförum á Alþingi þannig að ég held í sjálfu sér að þetta verði ágætislöggjöf þegar við ljúkum við hana hér. Það verður alla vega búið að fara mjög vel yfir hana og mjög margir hagsmunaaðilar hafa komið að því að því að leggja fram álit sitt og það ber auðvitað að þakka þá miklu vinnu sem ýmsir hafa lagt í að koma með álit og ráðgjöf til okkar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. En eins og hv. þingmaður Valgerður Sverrisdóttir nefndi þá er ástæða til að hafa áhyggjur af hagsmunum sjávarútvegsins og við verðum að hafa í huga þegar við vinnum að þessari löggjöf að drátturinn má ekki verða það mikill á því að ljúka löggjöfinni hvernig sem við gerum það svo á sínum tíma að það komi niður á hagsmunum sjávarútvegsins. Það væri mjög alvarlegt ef við sætum uppi með að útflutningur okkar væri stöðvaður á hafnarbökkum í Evrópu þegar líða fer fram á haustið eða veturinn. Þetta verðum við allt að hafa í huga við vinnslu málsins í Alþingi og (Forseti hringir.) reyna að vinna þetta sem best.