135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[11:07]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um staðfestingu Alþingis á bráðabirgðalögum um breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992, með síðari breytingum.

Eins og þingheimi og raunar allri þjóðinni er kunnugt reið mjög harður jarðskjálfti yfir Suðurland þann 29. maí síðastliðinn. Þetta var með hörðustu skjálftum sem hér hafa lengi komið eða 6,3 stig á Richter og það varð því miður mikið tjón á innbúi og heimilum þúsunda Sunnlendinga. Svo er guði fyrir að þakka að það varð þó ekkert tjón á fólki sem heitið gæti.

Fljótlega eftir að áhrif skjálftans komu í ljós komu fram ábendingar frá þeim sem áttu um sárt að binda af skjálftans völdum að eigin áhætta þeirra sem tryggðu lausafjármuni sem bæta skyldi hjá Viðlagatryggingu Íslands væri óeðlilega há miðað við það sem gerist hjá vátryggingafélögum á markaði. Þegar þetta var skoðað kom í ljós að líklegt var að að þessu leyti gæti munurinn verið allt að áttfaldur í sumum tilvikum og fjórfaldur hjá öðrum. Munurinn var greinilega mjög mikill þarna.

Í ljósi þess að mjög skýrt er kveðið á um eigin áhættu í lögum sem þá giltu þá var ekki mögulegt þrátt fyrir góðan vilja að lækka eigin áhættu þess sem vátryggði hjá Viðlagatryggingu nema með breytingu á lögunum. Eins og ég sagði áðan varðaði þúsundir heima það tjón á lausafjármunum sem varð og þess vegna þótti ekki annað fært en grípa til þess að breyta lögunum með útgáfu sérstakra bráðabirgðalaga. Að öðrum kosti hefði uppgjör tjónsbóta hugsanlega getað tafist með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum fyrir þá íbúa Suðurlands sem urðu fyrir tjóni í jarðskjálftanum.

Nú er mér mætavel kunnugt um það, herra forseti, að ákvæði er í stjórnarskránni sem gerir kleift að grípa til ráða ef mjög brýna nauðsyn ber til. Ég geng þess heldur ekki dulinn að í sölum hins háa Alþingis hafa staðið deilur og stundum illvígar um það hvernig bæði þessi ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnir hafa beitt þessu ákvæði. Ég tel hins vegar að þau tilvik sem við höfum stundum rætt á Alþingi séu svo allt öðruvísi en þetta og, ef ég mætti orða það svo, lítilfjörlegri miðað við það sem þarna gerðist að ég tel að það hafi verið fyllilega réttlætanlegt að grípa með þessum hætti til tafarlausra ráðstafana. Ég ætla aðeins, herra forseti, að reifa þau ákvæði sem var breytt með bráðabirgðalögunum og ég legg hér fyrir hv. Alþingi að staðfesta.

Í 10. gr. laganna um Viðlagatryggingu Íslands er kveðið mjög skýrt á um eigin áhættu vátryggðs og samkvæmt ákvæði laganna fyrir setningu bráðabirgðalaganna er eigin áhætta um 5% af hverju tjóni en þó aldrei lægri en 40 þús. kr. þegar um var að ræða tjón á húseignum og lausafé sem er brunatryggt en sömuleiðis kemur þar fram að fjárhæðin skuli umreiknast til samræmis við gildandi vísitölu byggingarkostnaðar á hverjum tíma. Ef fjárhæðin sem ég nefndi áðan er umreiknuð með þessum hætti þá kemur í ljós að eigin áhætta miðað við 1. apríl síðastliðinn var 85 þús. kr. Hún er sem sagt mörgum sinnum hærri en hjá vátryggingarfélögum þar sem skoðun leiddi í ljós að hún var 10–20 þús. kr.

Þegar um var að ræða tjón á ýmsum stærri mannvirkjum í eigu ríkis og sveitarfélaga — og þau mannvirki sem um ræðir geta hv. þingmenn séð talin upp í 2. mgr. 5. gr. laganna eins og þau stóðu, hér er um að ræða hitaveitur, vatnsveitur og hafnarmannvirki — þá var lágmarksfjárhæð eigin áhættu 400 þús. kr. En uppreiknuð upphæð miðað við 1. apríl 850 þús. kr. Í 1. gr. bráðabirgðalaganna er kveðið á um að eigin áhætta vátryggðs skuli vera 5% af hverju tjóni en þó ekki lægri fjárhæð en 20 þúsund í tilfelli lausafjármuna og 85 þúsund vegna húseigna, enn fremur að eigin áhætta vegna mannvirkja sem falla undir þá málsgrein 5. gr. laganna sem ég reifaði hér áðan verði 850 þús. kr. Þá er sömuleiðis í 2. mgr. 1. gr. bráðabirgðalaganna kveðið á um að ráðherra sé heimilt að hækka lágmarksfjárhæðir eigin áhættu með reglugerð og þar með er afnumin sú binding sem núna er að finna í lögunum við gildandi vísitölu byggingarkostnaðar á hverjum tíma. Til þess að hægt væri að ná því eindregna markmiði sem ég held að allir hafi deilt sem að málinu komu af ríkisins hálfu, bæði ríkisstjórn og Alþingi, að bæta tjónþolum með sanngjörnum hætti þá bar brýna nauðsyn til að gera breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands án tafar og það var gert með bráðabirgðalögum. Auk þess er síðan í 2. gr. laganna kveðið á um að þau skuli taka til tjóns sem hefur orðið frá 25. maí 2008. Hv. þingmönnum til upplýsingar get ég þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér í dag þá höfðu þann 28. ágúst borist 3.785 tjónstilkynningar og þær skiptust þannig að 2.080 eru vegna íbúðarhúsa en 2.220 vegna tjóns á innbúi. Þá höfðu sömuleiðis borist 175 tilkynningar um tjón á atvinnuhúsnæði, þar af 160 vegna tjóns á lausafé og síðan höfðu borist tilkynningar um 180 tjón á sumarhúsum.

Af hálfu tryggingafélagsins hafa 976 eignir verið skoðaðar, 830 millj. kr. verið greiddar í bætur vegna innbústjóna, 822 millj. kr. vegna 314 fasteignatjóna. Enn standa út af uppgjör vegna 202 fasteignatjóna sem mér er tjáð að sé rétt ólokið.

Það er svo rétt að geta þess líka að hæstv. viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðsson hefur þegar sett í gang nefnd sem er falið það hlutverk að semja frumvarp til nýrra laga um viðlagatryggingu. Nefndinni er ætlað að hraða starfi sínu með þeim hætti að unnt verði nú þegar í haust að leggja fram frumvarp sem er afrakstur af starfi nefndarinnar. Þá hefur forsætisráðherra sömuleiðis skipað nefnd sem hefur það hlutverk að meta hvernig skuli fara með ótryggð tjón einstaklinga og fyrirtækja og sömuleiðis hvernig skuli haga fjárhagslegum stuðningi við sveitarfélög meðal annars vegna endurreisnarstarfsins.

Herra forseti. Þetta er í stuttu máli sú greinargerð sem ég hef að flytja fyrir því frumvarpi sem hér er lagt fram þar sem óskað er staðfestingar Alþingis á bráðabirgðalögunum og ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. viðskiptanefndar.