135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[11:33]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra verður nú að sitja uppi með að gjörðirnar eru gagnrýndar þegar þær eru gagnrýnisverðar. Það er langt gengið þegar ráðherrar taka sér bráðabirgðalagavald í máli eins og þessu og í máli eins og á síðastliðnu sumri. Það er langt gengið gagnvart hlutverki Alþingis. Það er það sem á að setja lögin en ekki ráðherrarnir. En ráðherrarnir eru farnir að tala, hugsa og haga sér eins og það sé þeirra yfirþjóðlega vald — eða hvað á að kalla það — eins og það sem ég las hér upp áðan og kemur frá öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni.

Það gengur ekki að ráðherrar gangi hér um og setji lög þegar þeir telja þörf á. Það er þingið sem á að gera það. Þeir eiga að koma með málið fyrir þingið og þeir eiga að leggja sín rök fyrir það.

Og rökin fyrir því að lækka þurfi sjálfsábyrgðina núna en ekki árið 2000 hafa ekki komið fram. (Gripið fram í.) Þau hafa ekki komið fram. Ég held að menn eigi þá að vanda sig. Það er ekki stafkrókur um það í þessum bráðabirgðalögum eða í greinargerð með því, ekki stafkrókur, og hafa menn þó haft nógan tíma til þess að draga það efni saman.

Í öðru lagi eru þessi mál svo tímafrek að ekki þurfti að setja bráðabirgðalög strax til þess að breyta lagaumgjörðinni. Það var alveg nóg að gera það núna í september og það veit hv. þingmaður. Það kom fram í því sem hann las upp, að málinu er alls ekki lokið.