135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[11:34]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er algjörlega úti á túni í röksemdafærslu sinni. Þegar gripið var til þessara ráða lá það fyrir að sérfræðingar höfðu meira að segja spáð því að koma mundi annar stór skjálfi. Fólkið sem sætti þessum náttúruhamförum var í tilfinningalegu uppnámi eins og þjóðin öll. Það var sjálfsagt að ríkisstjórnin sýndi það í verki að hún hefði einbeittan vilja til þess að reyna að létta það tjón sem það þurfti að bera.

Það þýðir ekkert fyrir hv. þingmann að vísa til reynslunnar árið 2000 eða Flateyrarsnjóflóðsins. Auðvitað hafa menn lært af þeirri reynslu. Það tókst svo vel að sinna m.a. tilfinningalegum þörfum þeirra sem urðu fyrir þessum hamförum í vor vegna þess að menn byggðu á reynslunni frá árinu 2000 og frá öðrum náttúruhamförum. Ég þekki þetta af eigin raun. Ég var umhverfisráðherra þegar tvö alvarleg snjóflóð dundu yfir. Hv. þingmaður minntist á annað þeirra hérna áðan.

Ég er sammála hv. þingmanni um að auðvitað ber að reisa skorður við ásælni framkvæmdarvaldsins, sem oft er mikil og óhófleg, til þess að ráða of miklu. Ég er sammála hv. þingmanni um það. Ég er sammála því að gæta verður hófs í beitingu heimildar til setningar bráðabirgðalaga.

Um þetta mál gegnir allt öðru en t.d. það sem hér var til umræðu síðasta sumar og sumarið þar áður kannski sérstaklega. Þegar hv. þingmaður kemur svo hér með einhvern „popúlisma“ og talar um handbolta og 50 millj. kr. sem settar voru fram til styrktar landsliðinu og HSÍ og síðan peningum til Íbúðalánasjóðs þá minni ég hv. þingmann á að það er farvegur fyrir slíkt og hann er að finna í fjárreiðulögunum frá 1996. Ef menn fylgja þeim eins og þessi ráðherra hefur t.d. gert þegar (Forseti hringir.) hann hefur þurft á þessu að halda er í lagi að gera slíkt. En það má auðvitað ekki fara úr böndum. Hér er um allt annað mál að ræða.