135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[11:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er gamalkunnug umræða hér, og þræta má segja, um bráðabirgðalagasetningu og hversu langt framkvæmdarvaldið megi teygja sig í þeim efnum eða hversu rúmt það geti túlkað heimildir sínar. Viðleitni undanfarin mörg ár hefur verið sú að reyna að koma í veg fyrir að bráðabirgðalagavaldinu væri beitt og takmarka sem allra mest kringumstæður í slíkum tilvikum. Það ber m.a. að hafa í huga þegar vitnað er í eldri texta í þeim efnum að Alþingi hefur sjálft verið að reyna að móta ákveðna stefnu í þeim efnum að bráðabirgðalagavaldinu væri ekki beitt nema algerlega sérstakar og mjög brýnar neyðaraðstæður krefðust þess.

Mér fannst eitt vanta inn í skoðanaskiptin áðan um hið matskennda í þeim efnum — að sjálfsögðu deilir enginn um að ákvæði stjórnarskrár þurfa að vera uppfyllt. Það er hárrétt ábending hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að kanna ber þingviljann, að traustur þingmeirihluti sé fyrir málinu, áður en lengra er farið. Að mínu mati á að kanna viðhorf allra þingflokka. Það er lýðræðislegra og eðlilegra en að treysta á meiri hlutann einan og það hefur oft verið gert. Það mun hafa verið gert mjög lauslega að láta menn vita að þetta stæði til.

En það er að mínu mati ekki nóg að allar þessar kröfur séu uppfylltar, þ.e. gagnvart hinu matskennda, að þingmeirihluti sé til staðar, að viðfangsefnið sé mjög brýnt og að ákvæði stjórnarskrár séu uppfyllt. Það þarf líka að ganga úr skugga um að engin önnur úrræði en lagabreyting gangi til að takast á við málið. Menn þurfa með öðrum orðum að fara í gegnum það: Er hægt að takast á við viðfangsefnið, brýnt sem það kann að vera, með einhverjum öðrum aðferðum en þeim að breyta lögum? Væri t.d. í þessu tilviki hægt að bíða með lagasetningu til hausts þegar þing er komið saman og leggja til fjárheimildir til að mæta tjóninu að sama marki? Þar með hyrfi þörf fyrir setningu bráðabirgðalaga en viðfangsefnið væri engu að síður leyst. Ég hef ekki heyrt á það minnst í þessari umræðu hvort þeir möguleikar hafi verið kannaðir. Ef við föllumst á að efnisleg rök hafi verið fyrir því að gera þessa breytingu, að lækka sjálfsáhættuna, hún hafi verið orðin of há, átti að mínu mati að skoða rækilega hvort hægt væri að leysa úr því máli á annan hátt en þann að grípa til bráðabirgðalagasetningarvalds — alveg eins og átti að skoða hvort ekki væri hægt að takast á við raflagnamál á Keflavíkurflugvelli öðruvísi en að setja bráðabirgðalög. Ekki er hægt að segja að þetta byrji endilega sérstaklega vel hjá hæstv. ríkisstjórn.

Að öðru leyti vil ég segja að mér fannst undarlegt hvernig hæstv. ráðherra og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson tóku á ræðu Kristins H. Gunnarssonar. Þeir hafa að sjálfsögðu fullt leyfi til þess að vera honum ósammála, hv. þingmanni, en ég heyrði ekki betur en hann flytti rök fyrir máli sínu og fyrir þeim sjónarmiðum sem hann setti hér fram. Ég hlustaði á þau og ég er sammála sumum þeirra. Ég veit ekki hvort við bætum okkur neitt með því, sem mér virðist vera að verða plagsiður, að fara út í mikla einkunnagjöf um ræðuhöld annarra í staðinn fyrir að reyna að glíma við efnisatriðin sem þar er tæpt á.

Suðurlandsskjálftar eru með harkalegri náttúruhamförum sem við getum átt von á, Íslendingar, á u.þ.b. 100 ára fresti, það var mér kennt ungum og stóðst nokkuð í þessu tilviki því að stóri skjálftinn 1896 var náttúrlega miklar hamfarir. (Gripið fram í.)Já, ekki þessi stóri, stóri sem við tölum nú um og kemur kannski að meðaltali á 100 ára fresti þegar spenna hefur byggst upp á brotabeltinu. Hegðun þeirra er gjarnan svipuð, þeir byrja í uppsveitum og austast í Árnessýslu eða vestast á Rangárvöllum og færast síðan til suðvesturs niður í átt að ströndinni og það gerði skjálftinn einmitt núna þó að þetta bil væri á milli þeirra, 2000 og 2008. Þegar slíkir stóratburðir verða er í sjálfu sér ekkert nema gott um það að segja að ríkisstjórn sé á tánum og reyni að leggja sitt af mörkum. Ég vil því segja um þetta tilvik að ég gagnrýni það í sjálfu sér ekki að öllu leyti að gripið var til bráðabirgðalagavalds — ég er hugsi yfir tilefninu og inntaki þess og velti fyrir mér hvort hægt hefði verið að finna aðrar leiðir til að ná fram sömu markmiðum. Ég vil segja að mér finnst ákaflega óheppilegt að grípa þurfi til bráðabirgðalagasetningar við slíkar aðstæður.

Menn eiga líka stundum að telja upp að tíu. Ég held að það hefði í sjálfu sér ekki breytt miklu um andrúmsloftið dagana eftir skjálftana hvort þetta var nákvæmlega gert svona eða upplýst að þessi mál yrðu skoðuð en brugðist við með öðrum hætti — ég held það hafi tekist ágætlega í öllum aðalatriðum að takast á við þetta.

Vandinn er m.a. sá að menn verða að huga að samræminu í þessum hlutum og þar er komið að því sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var m.a. að ræða og ég verð að taka að nokkru leyti undir. Maður spyr: Hvað hefur breyst síðan 2000, þó að við tökum ekkert annað, þegar skjálftarnir riðu yfir þá í júní og tjónið varð mjög hliðstætt því sem er núna? Já, það varð talsvert tjón á húsum en það var gríðarlegt tjón á innbúi. Það vill svo til að ég fór sjálfur um uppsveitir Suðurlands og kom á bæi í hinum ágæta Gnúpverjahreppi, eða Eystrihreppi, sem svo var sagt til forna, og inn á heimili þar sem húsin höfðu staðið þetta sæmilega af sér en allt var ein rjúkandi rúst innan dyra, með öðrum orðum þar var mikið tjón á innbúi. Þá báru menn þessa áhættu sem nú á að lækka verulega þannig að þá kemur þessi spurning upp, þarna er ákveðið misræmi.

Að byggingarvísitalan hafi hækkað svo gríðarlega síðan. Já, hún hefur auðvitað gert það og kannski skrúfað þetta dálítið meira upp en heppilegt er, e.t.v. ætti að hafa annars konar verðtryggingu eða uppreikningsákvæði gagnvart t.d. innbúi, bara almenna neysluverðsvísitölu eða eitthvað því um líkt, en ég hygg þó að þetta sé ekki það langt frá þróun almenns verðlags að hægt sé að segja að það breyti mjög miklu. Hér er auðvitað um umtalsverða ívilnun að ræða ef við munum eftir því að menn báru 50 þús. kr. sjálfsáhættu gagnvart innbúi árið 2000. Síðan er nokkuð liðið og nokkrar verðhækkanir, það er 60 þús. í dag eða eitthvað svoleiðis framreiknað, þ.e. viðmiðunin frá 2000, en hér er hún lækkuð aftur ofan í 20 þús. Það er þó nokkuð rausnarlegt verð ég að segja. Það hlýtur að teljast tiltölulega lítil sjálfsáhætta. Ég er ekki að gagnrýna það að komið sé til móts við fólk í þessum efnum og það eru sjónarmið sem eru gild að horfa til þess hvað er almenn og venjuleg sjálfsáhætta hjá fólki t.d. í tryggingum, það er ekkert óeðlilegt að viðlagatryggingin taki eitthvert mið af því en það þarf líka að huga að samræmi hlutanna að einhverju leyti.

Svo kemur að því sem ég er mjög ósáttur við í frumvarpinu og það er reglugerðarákvæðið. Þar tel ég að menn fari ekki vel með bráðabirgðalagasetningarvaldið í öllu falli. Hvað á það að þýða að ætla í bráðabirgðalögum að fara að breyta fyrirkomulagsatriði af því tagi, framkvæmd, sem ekkert á skylt við þetta tjón? Ef við höfum nú skilning á því að menn hafi talið sig knúna til að fara til forsetans og óska eftir bráðabirgðalögum til að lækka sjálfsáhættuna hvaða erindi átti þá kerfisbreyting inn í það mál? Ekki neitt. Ég hef miklar efasemdir um hana. Ég tel að menn hafi þarna gert mistök, þessu átti ekki að blanda í málin, þessum síðasta málslið 1. gr., enda er ég á því að mjög varhugavert sé að fara út á þá braut. Er skynsamlegt að ráðherrann hafi heimildir í hendi sinni í hvert skipti sem tjón verður af þessu tagi að sýna eitthvert örlæti? Er ekki betra að það sé bara bundið í lögum? Ég held að þetta sé ekki gáfulegt og það hljóti að vera hægt að finna viðmiðanir til framreiknings á þessum fjárhæðum sem hægt er að hafa í lögum og það sé miklu betri frágangur. Ég legg því til að þessu verði hent út og athugað miklu betur, hugsanlega hvort að einhverju leyti ætti að nota aðra viðmiðun en byggingarvísitöluna eða einhvern blandaðan uppreikning eða hvernig sem það nú gæti orðið. Þetta eru athugasemdir mínar við frumvarpið, frú forseti, á þessu stigi málsins.