135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[12:06]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, þ.e. þau bráðabirgðalög sem sett voru í sumar sem styðjast við heimild í 28. gr. stjórnarskrárinnar. Það er einu sinni þannig að þær heimildir sem þar er um að ræða takmarkast við það að brýna nauðsyn beri til. Það verður að vera brýn nauðsyn til þess að um það geti verið að ræða að gefa megi út bráðabirgðalög. Ef ekki er um slíkt að ræða þá er bráðabirgðalagaákvörðun óheimil. Þess vegna er spurningin þegar hlutirnir koma fyrir þingið hvort brýna nauðsyn hafi borið til að gefa út þau bráðabirgðalög sem hér ræðir um. Það er eitt atriði. Síðan er annað atriði hvort menn geta verið efnislega sammála eða ósammála því sem hér er um að ræða. Ég get lýst því strax yfir að ég er efnislega sammála meginhluta þeirra breytinga þess frumvarps sem hér liggur fyrir. Miðað við hvers konar tjón var um að ræða þá tel ég að eðlilegt hafi verið að lækka sjálfsáhættuna svo sem hér var gert. Í því tilefni finnst mér eðlilegt að vekja athygli á því sem mér hefur fundist á skorta að kæmi inn í umræðuna en það er að meginatriðið varðandi eigin áhættu kemur fram í upphafi 1. gr., þ.e. 10. gr. laganna, þ.e. eigin áhætta vátryggðs skal vera 5% af hverri fjárhæð. Þetta er meginreglan, 5% af hverju tjóni, þó eigi lægri fjárhæð en hér segir. Það þýðir að ef um verulegt tjón er að ræða þá kemur þessi 5% regla til greina en ekki þær fjárhæðir sem eru í töluliðum 1–3. Tjón sem varð í jarðskjálftunum þann 29. maí var yfirleitt ekki altjón heldur minni háttar tjón og því reyndi mjög á þær reglur sem þar er um að ræða vegna þess að menn komu ekki inn í 5% regluna eftir því sem ég skil, þ.e. fjárhæðirnar sem um var að ræða voru það lágar. En ef það hefði verið altjón þá hefði 5% reglan ávallt gilt og lágmarksfjárhæðirnar aldrei komið til greina. Ég tel að meginmunurinn á þessu og til dæmis snjóflóðunum sem hér var minnst á að þar hafi nánast í öllum tilvikum gilt meginreglan um 5% áhættuna en ekki reynt á lágmarksfjárhæðirnar. Mér þykir það alla vega líklegast. Það er verið að tala um að eigin áhættan er 5% en hún má þó ekki vera lægri en þær fjárhæðir sem þarna er um að ræða.

Þá vaknar líka spurning um hvort við séum að setja eðlileg mörk í þessu tilviki og vel kann að vera að það geti verið spurningin um hvers eðlis það tjón er sem þarna er um að ræða. Þarna var mikið það sem við getum kallað tjón sem nam ekki verulega háum fjárhæðum þó að mörg þeirra hafi gert það og því hygg ég að eðlilegt hefði verið að taka þetta til skoðunar. Efnislega voru því rök fyrir því að gera breytingar á lögum um viðlagatryggingu. En það er spurning hvort eðlilegt hafi verið að gera það með bráðabirgðalögum svo sem gert var eða ekki. Það vildi þannig til að jarðskjálftinn varð þann 29. maí á síðasta starfsdegi Alþingis í vor og mátti því gera ráð fyrir því þá þegar að komið gæti til þess að eðlilegt væri að þingið brygðist við. Miðað við þær aðstæður hefði verið eðlilegt að mínu mati að ríkisstjórnin hefði komið saman og það hefði verið ákveðið hreinlega að fresta frestun á þingfundum Alþingis og athuga hvernig hlutirnir hefðu þróast miðað við þær miklu náttúruhamfarir sem hæstv. starfandi viðskiptaráðherra lýsti rækilega í sinni framsöguræðu. En það var ekki gert og skömmu síðar, örfáum dögum síðar, eru þau bráðabirgðalög gefin út sem um ræðir og þar er að mínu viti verið að fara á ystu brún þess að segja að brýna nauðsyn hafi borið til þess að gefa út bráðabirgðalögin miðað við þær aðstæður sem voru fyrir hendi. Þó ég sé efnislega sammála þeirri niðurstöðu sem þarna er um að ræða tel ég að verið sé að fara stjórnskipulega á ystu brún varðandi það að túlka hugtakið brýna nauðsyn svo rúmt sem raun ber vitni. Það hefur þó verið viðtekið og miðað við að almennt meti stjórnvaldið sjálft hvort nauðsyn sé brýn eða ekki. En það liggur fyrir að stjórnvald hefur ekki eitt úrskurðarvald í þeim efnum og þarna er að mínu viti farið alla vega á ystu brúnina hvað það varðar. Það ber þó hins vegar að segja það svo gætt sé samræmis í málflutningi að þarna var um að ræða tjón sem greinilega snerti mjög mikinn fjölda einstaklinga sem var kannski ástæða til að taka tillit til.

Ég átta mig ekki á hvernig þessi tímaviðmiðun er, virðulegi forseti, því ég sé ekki annað en klukkan hoppi til og frá. Allt í einu eru það 28 mínútur. Svo eru það 14. Svo er það allt í einu komin niður í sjö. Miðað við klukkuna þarna uppi er ekkert samræmi í þessu.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill biðjast velvirðingar á þessu. Klukkan hefur ekki alveg látið að stjórn hér. En nú gerum við ráð fyrir að hún sé komin í lag. Hv. þingmaður á eftir sjö mínútur af sinni ræðu miðað við það hvenær hann hóf ræðuna.)

Mér fannst þetta ágætt áður, virðulegi forseti, meðan klukkan stóð alveg kyrr og hugðist notfæra mér það til hins ýtrasta. En það verður greinilega ekki um það að ræða eftir því sem þetta er.

Spurningarnar voru þessar sem sagt: Bar brýna nauðsyn til eða ekki? Og ég hef lýst því að ég tel að farið hafi verið á ystu brún hvað það varðar.

Þá er spurningin líka: Ef brýna nauðsyn ber til að gefa út bráðabirgðalög á þá að gefa út bráðabirgðalög sem að efni og inntaki fjalla um annað en það sem brýna nauðsyn ber til að taka á? Ég tel að það eigi ekki að hafa lögin með öðrum hætti en þeim að það sé eingöngu vikið að því sem stjórnvaldinu þykir, viðkomandi ráðherra eða ríkisstjórn, nauðsynlegt eða sem sagt fellur undir hina brýnu nauðsyn. Þá komum við að síðustu málsgrein 1. gr. frumvarpsins, þ.e. að ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða hækkun á ofangreindum lágmarksfjárhæðum. Hvaða brýna nauðsyn bar til að setja þetta ákvæði í bráðabirgðalög? Ég gat ómögulega séð að um það gæti verið að ræða að þetta félli undir þær heimildir sem markaðar eru í 28. gr. stjórnarskrárinnar um brýna nauðsyn. Þar af leiðandi er stjórnvaldið farið að seilast lengra heldur en eðlilegt er miðað við það tilefni sem þarna var um að ræða. Að gefnu tilefni og af því að ég get tekið undir þau sjónarmið sem hafa komið fram að fara beri varlega varðandi útgáfu bráðabirgðalaga — ég gat ekki heyrt annað í framsöguræðu hæstv. starfandi viðskiptaráðherra en að hann væri þeim sjónarmiðum sammála, að það bæri að fara varlega og það ætti ekki að gera nema það væri virkileg þörf á — þá tel ég líka að efni og inntak þeirra bráðabirgðalaga sem verið er að ganga frá eigi að vera líka þess eðlis að ekki sé farið út fyrir þá brýnu nauðsyn sem í raun getur hugsanlega hafa réttlætt útgáfu bráðabirgðalaganna. Ég tel ljóst að í 2. mgr. 1. gr. sé farið út fyrir hið eðlilega mat á því hvenær og hvernig menn túlka brýna nauðsyn í því sambandi.

Af hverju er ég að velta þessu upp með þessum hætti? Það er vegna þess að ég tel að umræður á Alþingi skipti máli sem lögskýringargagn varðandi það hvernig menn líta á útgáfu bráðabirgðalaga. Þess vegna finnst mér þetta nokkuð stórt mál, mjög mikilvægt atriði að það séu þá ekki gefin út bráðabirgðalög nema eingöngu þegar brýna nauðsyn ber til að tekið sé á eða brugðist sé við. Hver var hin brýna nauðsyn? Jú, eins og hæstv. starfandi viðskiptaráðherra sagði í framsöguræðu sinni þá bar að mati stjórnvalda brýna nauðsyn til að lækka lágmarksfjárhæðir eigin áhættu. Það bar brýna nauðsyn til þess miðað við það sem um var að ræða. En það var engin þörf á einum eða neinum lagaákvæðum til viðbótar því. Það var eingöngu lágmarksáhættan sem spurningin var um. Þar af leiðir að þá erum við komin — þó ekki sé vikið til annars en eingöngu framsöguræðu hæstv. starfandi viðskiptaráðherra — þá erum við komin út fyrir viðfangsefnið og heimildirnar í 28. gr. stjórnarskrárinnar. Ég tel það óeðlilegt og óheppilegt að þannig skuli hafa verið staðið að málum og mér finnst óhjákvæmilegt annað en að vakin sé sérstök athygli á þessu máli þannig að komi til og þegar kemur til — því að ég reikna ekki með því að þetta sé síðasta tilvikið sem kom upp til þess að þessi bráðabirgðalög verði notuð — að þá verði þess sérstaklega gætt af stjórnvöldum að gera ekki þau mistök sem ég tel tvímælalaust að hafi verið gerð hvað þetta varðar í þessu efni. Þó að kannski efnisatriðið sé ekki stórt eða mikilvægt þá finnst mér að gjalda beri varhuga við því að láta svona hlut átölulaust fara í gegn. Ég á seturétt í viðskiptanefnd sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar og mér finnst eðlilegt að þar verði getið sérstaklega um þetta atriði.

Ég vil svo taka undir með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni varðandi þær tilkynningar sem hafa verið sendar frá ríkisstjórninni um alls kyns gjafir og útgjöld úr ríkissjóði sem er ekki ríkisstjórnarinnar að gera af því að fjárveitingavaldið er hjá Alþingi — mér finnst miður að þannig skuli hafa verið staðið að málum — og tilkynnt um stórar fjárveitingar jafnvel sem ekki hafa verið neinar fjárveitingar fyrir. Mér finnst óviðurkvæmilegt að þannig sé staðið að málum. En það er í raun annað mál. Hins vegar get ég ekki tekið undir með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni þegar hann talar um að framsöguræða hæstv. starfandi viðskiptaráðherra hafi verið snautleg vegna þess að hæstv. ráðherra er með vígfimari mönnum í ræðustól og ræður hans eru aldrei snautlegar þó þær séu mismunandi innihaldsríkar og vissulega hafa margar ræður hans verið innihaldsríkari en sú sem hann flutti í framsögu fyrir því máli sem hér um ræðir.