135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[12:20]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að lögvísindin eru ekki nákvæmnisvísindi. Það er þess vegna sem menn horfa til þeirra manna um túlkun sem hafa mikla reynslu að baki við að túlka lög og benda mönnum á leiðir til að framfylgja þeim sem best. Það hefur verið starfi hv. þingmanns og þess vegna tek ég mark á honum.

Ég segi það svo að ég er sammála þeirri túlkun sem hefur komið fram hjá honum og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að ef að ríkisstjórnin telur þörf á því að grípa til þess úrræðis sem felst í bráðabirgðalögum eigi hún að freista þess að halda sig við nákvæmlega það sem er mjög brýnt úrlausnarefni. Þess vegna get ég með hálfum huga farið í humátt eftir hv. þingmönnum þegar þeir benda á að hugsanlegt sé að ákvæði um reglugerðina sem hv. þingmenn hafa vísað til sé skafanki í annars mjög þarfri löggjöf. Ég mun sem starfandi viðskiptaráðherra ræða það mál við hæstv. viðskiptaráðherra þegar hann kemur heim vegna þess að ég hef röklega samúð með þeim viðhorfum sem þingmennirnir hafa sett fram.

Þetta er auðvitað eitthvað sem viðskiptanefnd ræðir og því má ekki gleyma að hún leggur síðan til við Alþingi hver verða afdrif þessa frumvarps og í hvaða mynd það kemur. En þetta er a.m.k. eitthvað sem ég er reiðubúinn til að setja í reynslusjóðinn og draga dám af í framtíðarverkum. Ég tek það þó alveg skýrt fram að ég er ekki að boða það að núverandi ríkisstjórn ætli að taka upp þann plagsið að setja bráðabirgðalög af hvaða tilefni sem er. (KHG: Bráðabirgðalög á Húsavík.) Ég vil bara ítreka það að ég er sammála því sem fram hefur komið að það á að fara mjög spart með þetta og það verður að vera mjög ríkt tilefni til.