135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[12:38]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil upplýsa hv. þingmann um að ég er í einstaklega góðu skapi í dag og fer fjarri því að ég sé viðskotaillur og væri ég það þá mundi ég aldrei vera það gagnvart hv. þingmanni sem ég hef mætur á.

Hins vegar verður auðvitað að gera kröfu um að hv. þingmenn viti hvað þeir eru að segja þegar þeir saka ríkisstjórnina um að hafa ekki uppfyllt skyldur laga. Ef svo væri að við þyrftum, ríkisstjórnin, að koma til Alþingis og biðja um peninga og fjárframlög og heimild Alþingis til þess að standa undir þessu þá hefði það auðvitað verið gert.

Hér er um það að ræða að þetta er sterk stofnun eins og hv. þingmaður veit. Hann hlýtur að vita það eftir að hafa fjallað mörgum sinnum um stofnanir ríkisins, þar á meðal þessa gegnum langa tíð sína í fjárlaganefndinni, að hún situr á gildum sjóðum.

Það er ekki um það að ræða að verið sé að óska eftir fjárheimildum, bara svo það liggi alveg ljóst fyrir, frú forseti, og það er þess vegna sem ég vildi bara vekja eftirtekt hv. þingmanns á þessu. Það var margt gott og rétt sem hann sagði í sinni ræðu. En það gengur ekki að hann komi hingað og kvarti og kveini undan því að ríkisstjórnin standi ekki við lög um fjárreiður ríkisins. Það sem hann sagði að ríkisstjórnin hefði þurft að gera á sér ekki stoð í veruleikanum. Það hlýtur hv. þingmaður að geta fallist á. Hann getur hins vegar líka hugsað þetta í leyndum huga síns og þarf ekkert að svara mér núna. En svona er nú staðan.