135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[12:40]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra fær hér að fara nokkuð oft upp í andsvör og það er ágætt. En ég frábið mér það að hann sé að draga athyglina frá mikilvægi þessa máls sem er að Viðlagatryggingasjóður geti staðið við skuldbindingar sínar og komið til móts við svo brýnar þarfir sem eftir jarðskjálftana á Suðurlandi. Það er meginmálið.

En af því að hæstv. ráðherra hefur greinilega ekki lesið frumvarpið til enda sem hann er að flytja — ég held að hann sé í sjálfu sér í góðu skapi en ég virði honum til vorkunnar að hann er hér settur viðskiptaráðherra og hefur þess vegna ekki lesið frumvarpið til enda. En hér stendur nú, með leyfi forseta, í 1. gr.

„Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákvarða hækkun á ofangreindum lágmarksfjárhæðum.“

Ráðherra hefur ekki annað fjárveitingavald en hann tekur frá Alþingi og þarna er verið að gera það. Eins stendur hér í umsögn fjárlagaskrifstofunnar, bara svo ég bendi á það að fjárlagaskrifstofan er á öðru máli en ráðherrann og allt í besta lagi með það. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.“ (Iðnrh.: Akkúrat.)

„Verður ekki séð.“ En það er ekki þar með sagt, og þeir einmitt ítreka það, að þetta komi ríkissjóði með beinum hætti við því annars hefði ekkert verið leitað umsagnar fjárlagaskrifstofunnar. Það er nú þannig.

Ég vona að hæstv. iðnaðarráðherra, þótt hann sé settur viðskiptaráðherra, lesi frumvarpið til enda og umsagnir fjárlagaskrifstofunnar því eins og segir, ef það hefði ekki snert ríkissjóð beint þá hefði ekki þurft að leita umsagnar fjárlagaskrifstofunnar. Svo einfalt er (Forseti hringir.) það nú.

En ég vona svo sannarlega, frú forseti, að viðskiptanefnd sem fær málið til umfjöllunar taki efnislega á því og (Forseti hringir.) afli upplýsinga þannig að það fái afgreiðslu sem fyrst.